Gosvirkni minnkar
Þriðjudaginn 18. maí 2010 markaði upphafið að endinum í gosinu í Eyjafjallajökli. Þann dag byrjaði virknin í gosinu að minnka hratt og var lítil sem engin virkni í eldfjallinu eftir 22. maí, þó með mikilli gufuvirkni.
Á milli 18. og 20. maí fór gosmökkurinn niður í 5 km hæð úr 7 km og magn af gosefnum úr 200 tonnum á sekúndu niður fyrir 50 tonn. Enn var sprengivirkni í gígnum, en lítil sem ekkert hraun rann frá honum. Eftir 20. maí hélt kraftur gossins enn að minnka og hætti sprengivirknin og hraunrennslið frá gígnum þann 22. maí. Gosmökkurinn hélt áfram að lækka og eftir 22. maí var mökkurinn ljós gufumökkur með engri ösku í sér. Lítil jarðskjálftavirkni hélt þó áfram eftir 22. maí, en hún var óveruleg og svipuð virkninni fyrir gos.
Fínkornótt móberg, eða móbergstúff, myndast í eldgosum þar sem kvika snöggkólnar vegna snertingar við vatn og tætist í sundur og myndar glerkennda gjósku. Gjóskan, sem er oft fínkornótt og dökk (aska), sest til og límist síðan saman og myndar fínkornótt móberg.
Móbergsmyndunin á Íslandi er það móberg sem myndast hefur vegna eldgosa undir jöklum eða í sjó á síðari hluta ísaldar, eða fyrir 0,78-0,01 milljónum ára. Flatarmál mynduninnar er um 11.200 km2 og er að finna á öllum núverandi virkum gosbeltum landsins. Í móbergsmynduninni er ekki eingöngu að finna móberg, þar sem grunneiningar myndunarinnar eru einnig bólstraberg, innskot og hraunþekjur. Þá eru móbergshryggir og móbergsstapar algengir í mynduninni og má sjá mörg dæmi af þeim innan Kötlu jarðvangs. Þar má m.a. oft finna mismunandi jarðlög móbergsmyndunarinnar, t.d. kubbaberg, stuðlaberg, móberg og brotaberg (þursaberg). Jarðlögin geta öll myndast í sama gosinu, en við mismunandi aðstæður í gosinu sjálfu.
Móbergið myndast þegar kvika snöggkælist við gos undir jökli eða í sjó, en þá tvístrast kvikan og myndar gosösku í staðin fyrir hraun. Gosaskan sest síðan til í kringum gosopið og nefnist þá túff. Túffið ummyndast fljótlega þannig að það límist saman og myndar berg, sem er þá kallað móberg. Brotabergið myndast við sömu aðstæður, en þegar tvístrun kvikunnar er ekki eins öflug þannig að hraunbrot setjast með í öskunni. Kubbaberg verður til við hraða kólnun á hrauni, hrauni sem gæti bæði verið í innskoti í móberginu eða í hraunflæði þegar vatn nær ekki lengur að komast að gosopinu. Stuðlabergið myndast við sömu aðstæður en við hægari kólnun en við myndun kubbabergs, en oft má sjá stuðlaberg annað hvort fyrir neðan eða ofan á kubbabergi.