Fundargerð - 03. júní 2021

57. fundur stjórnar Kötlu jarðvangs haldinn í fjarfundi, miðvikudaginn 3.6 2021 kl. 13:15.

Mætt: Anton Kári Halldórsson, Þorbjörg Gísladóttir, Björg Árnadóttir, Ólafía Jakobsdóttir (þurfti að víkja af fundi áður en honum lauk), og Sigurður Sigursveinsson sem ritaði fundargerð. Einnig sat fundinn framkvæmdastjóri jarðvangsins, Berglind Sigmundsdóttir.

  • Berglind fylgdi úr hlaði yfirliti um fjárhagsstöðuna, og fór jafnframt yfir stöðu verkefna. Samhliða lokun gestastofu í upphafi árs 2020 og heimsfaraldursins var gripið til harkalegra aðhaldsaðgerða 2020, uppsagna starfsmanna og nýtingu hlutabótaleiðar fyrir aðra starfsmenn. Við gerð ársreiknings 2020 hefur komið í ljós að fjárhagsleg afkoma 2020 reyndist miklu jákvæðari en reiknað hafið verið með. Auk ofangreindra skýringa kom þar til að 2020 greiddi Framkvæmdasjóður ferðamannastaða um 4,3 mkr eftirstöðvar 10 mkr styrks sem fékkst 2016. Kostnaðurinn hafði verið færður í ársreikningum fyrri ára en ekki þessar óinnheimtu tekjur. Ferðakostnaður reyndist miklu minni þar sem fyrirhugaðir fundir erlendis féllu niður vegna heimsfaraldursins. Þá er tekjufærsla vegna Ruritage verkefnisins álitamál hverju sinni þar sem uppgjör í því verkefni taka til 18 mánaða hverju sinni. Þá höfðu viðbótarframlög sveitarfélaganna vegna Þorvaldseyrar ekki ratað inn á rétt ár þar sem þau höfðu ekki öll leitað heimilda fyrir þeim á útgjaldaárinu. Þá vakti Berglind athygli stjórnar á því að 5 ára samningurinn við umhverfis- og auðlindaráðuneytið um styrk til jarðvangsins rynni út í árslok 2021. Í umræðum kom m.a. fram ábendingar um að það kynni að vera vænlegra að leita til sveitarstjórnarráðuneytisins um framlög, sbr. Svæðisgarðinn á Snæfelssnesi. Fjárlagavinna er nú á lokametrunum í ráðuneytunum og þvi mikilvægt að sveitarfélögin beiti áhrifum sínum í þessu sambandi. 

 

  • Margrét Jóna Ísleifsdóttir fjármálastjóri Rangárþings eystra kom inn á fundinn og fór yfir drög að ársreikningi jarðvangsins 2020. Endurskoðendur höfðu lagt til að færa hluta framlaga 2020 inn í efnahagsreikninginn til að lækka skattstofninn og lækka framlögin 2021 á móti, en skv. síðustu skilaboðum frá þeim er það ekki talið heimilt. Stefnir því í um 2,5 mkr tekjuskattsálagningu 2021. Samþykkt að boðað verði sem fyst til annars stjórnarfundar þar sem fullbúinn ársreikningur verði tekinn fyrir til samþykktar. Rætt um hugsanlegt starfsmat fyrir starfsmenn jarðvangsins en nú er orðið ljóst að þar sem jarðvangurinn er sjálfseignarstofnun og starfsmennirnir ekki starfsmenn sveitarfélaganna er ekki nauðsynlegt að fara í þessa vinnu. Í þessu sambandi benti Berglind á að hún hefði ekki fengið sérstaka starfslýsingu þegar hún tók við ábyrgðinni á rekstri jarðvangsins.

 

  • Berglind fór yfir fjárhagsáætlun 2021 sem uppfærð hefur verið í ljósi afkomunnar 2020. Gerir hún m.a. ráð fyrir ráðningu starfsmanns í 6 mánuði með stuðningi Vinnumálastofnunar, gerð heimasíðu, kostnaði vegna leigu á aðstöðu fyrir jarðvanginn, og fl. Þá benti Berglind á að sveitarfélögin þyrftu að taka afstöðu til þess hvernig eigi að fara með viðhald á áfangastöðunum/jarðvættunum, hvort jarðvangurinn eigi að setja slíkt inn í fjárhagsáætlun eða hvort þau sjái um það um leið og þau tryggi sýnileika jarðvangsins og aðkomu hans að viðhaldinu, uppfærslu efnis oþh. Berglind kynnti fyrirhugaða námsdvöl doktorsnema frá Spáni í 2-3 mánuði í haust en doktorsverkefni hennar snýr að upplýsingamiðlun innan jarðvanga. Tillaga Berglindar er að veita nemanum lítils háttar fjárstyrk en á móti kæmi vinna hennar við að gera markaðsefni með jarðvangsfyrirtækjunum. Í fjárhagsáætluninni er að finna sérstakt átaksverkefni í sýnileika fyrirtækja og jarðvangsins á svæðinu, m.a. með námskeiðum, jarðvangsplöttum, upplýsingastöndum, fánum, bæklingum o.fl. Björg fulltrúi samstarfsfyrirtækja velti fyrir sér hvot þetta væri tímabært á þessu stigi, og að jarðvangurinn ætti að einbeita sér að fræðslu og upplýsingagjöf fremur en markaðsvinnu fyrir samstarfsfyrirtækin. Berglind benti á þetta væri eitt af mikilvægari verkefnum, einkum gagnvart úttekt, sýnileikann hefur skort og mikilvægt væri að vinna með fyrirtækjunum og öðrum að því að bæta sig þar. Einnig voru fyrirtækjasamningar ræddir, og hvort eigi að innheimta aðildargjöld í rekstri jarðvangins, eins hvort tilefni væri til að einfalda og endurskoða þá til að liðka fyrir þátttöku fyrirtækja í samstarfsvettvang jarðvangsins. Samkvæmt skilmálum hnattrænna jarðvanga skulu samstarfssamningar liggja fyrir milli fyrirtækja og jarðvangsins og eiga þeir að vera leiðbeinandi í átt að sjálfbærri ferðamennsku/áfangastað. Berglind ræddi að mikilvægt væri að finna leið til að vinna að markaðsmálum og auknum sýnileika fyrirtækja svæðisins í samvinnu við Markaðsstofuna en á sama tíma er mikilvægt að horfa ekki eingöngu til aðildarfyrirtækja hennar, jarðvangurinn væri m.a. hugsaður til að efla innra hagkerfi svæðisins og þar með styðja við öll fyrirtækin. Hún hefur heyrt í öðrum jarðvöngum og t.d. er einn í Finnlandi sem hefur gert samstarfssamning við sína svæðismarkaðsstofu um að styðja sérstaklega við 5 fyrirtæki hverju sinni og borga fyrir aðild þeirra inn í markaðsstofuna, á afslætti (500 evrur í stað 1200). Þannig geta þau hjálpað „litla manninum“ um leið og hvatinn til að vinna með jarðvanginum eykst. Þetta hafi gefið góða reynslu hjá þeim.

 

  • Afgreiðslu áætlunar frestað til næsta fundar.

 

  • Rætt um næstu skref í svæðismörkunarverkefninu, en í tillögum Alta var hvatt til þess að jarðvangurinn færi í slíka vinnu. Fjármagn hefur fengist úr Sóknaráætlun Suðurlands og Berglind og Sigurður hafa átt fundi með breskum sérfræðingum í þessu sambandi. Þeir hafa gefið kost á stuttri kynningu á tillögu sinni til stjórnar. Hugmyndin er að fyrst standi þeir fyrir 4 klst greiningarfundi með hagaðilum (eða tveimur tveggja klukkustunda fundum) og í framhaldinu yrði verkefnið skilgreint nánar af þeirra hálfu. Álitamál er hvort slíkur fundur náist fyrir sumarfrí. Samþykkt að stefna að kynningu fyrir stjórn á næsta fundi.

 

  • Berglind kynnti áform um að senda ungmennafulltrúa úr jarðvanginum á jarðvangaráðstefnu UNESCO sem nú er fyrirhuguð í desember. Tækifæri séu til staðar að virkja þennan aldurshóp, 18-24 ára og stofna jarðvangsráð ungmenna í Kötlu jarðvangi. Hugmyndin er að þessi fulltrúi sem fær boðsmiða út sé virkur í starfi jarðvangsins. Val á fulltrúanum fer fram hjá Íslensku jarðvangsnefndinni en Berglind nefndi að gaman væri ef báðir jarðvangar gætu sent hvor sinn fulltrúa til að styrkja tengslin á milli jarðvanga Reykjanes og Kötlu, einkum milli þessara fulltrúa. Kominn er styrkur upp á 100.000 frá ráðuneytinu í þetta, en netverkið úti mun auk þess greiða fyrir þátttöku eins aðila frá hverju landi. Viðrað þeirri hugmynd að e.t.v. geti báðar jarðvangar skipt kostnaðinum sem eftir stendur.

 

  • Umræðu um væntanlega úttekt á jarðvanginum síðar á árinu frestað til næsta fundar, en Berglind leggur áherslu á að stjórnin setji sig inn í þau mál.

 

  • Anton Kári tilkynnti að hann hefði ákveðið að segja sig frá stjórnarsetu og í hans stað kæmi Lilja Einarsdóttir sveitarstjóri Rangárþings eystra. Antoni Kára voru þökkuð störf hans í þágu jarðvangsins.

Fleira ekki og fundi slitið kl. 15:45