Víkurfjöruverkefnið

Katla jarðvangur og Víkurskóli, í samstarfi við Kötlusetur í Vík, hófu rannsóknarverkefni sem kallast Víkurfjöruverkefnið þann 12. janúar 2021. Verkefnið gengur út á að rannsaka strandlínu- og fjörubreytingar í Víkurfjöru á næstu árum með því að mæla sex snið í Víkurfjöru fjórum sinnum á ári, mæla staðsetningu fjörukambsins árlega, taka sandsýni úr fjörunni og mynda fjöruna við hverja mælingu.

Víkurfjöruverkefnið var styrkt af Sprotasjóði árið 2021. Katla jarðvangur og Víkurskóli vilja hér með koma þökkum til sjóðsins ásamt Jóhanni Guðlaugssyni sem lánar verkefninu TopCon GPS tækið sem nýtt er í mælingarnar.

Markmið mælinganna er að rannsaka stöðuleika þess hluta Víkurfjöru sem varin er af sandföngurum, ásamt því að nemendur kynnist því hvernig sé staðið að og fái reynslu í vísindarannsóknum. Á meðan verkefninu stendur munu nemendur Víkurskóla sjá um allar mælingar í fjörunni, en einnig sjá um úrvinnslu gagna, kornastærðargreiningu á sandsýnum, og taka lofmyndir með dróna. Nemendur munu því fá góðan grunn í mismunandi aðferðum, en slík reynsla mun vonandi nýtast þeim vel í framtíðinni. Verkefnið á einnig að auka skilning nemenda á strandumhverfum, sérstaklega sandfjörum eins og eru við Vík, sjávarstraumum, sjávarföllum, öldum, og áhrif jökulhlaupa úr Kötlu á fjöruna.    

Sniðin sex voru sett upp í Víkurfjöru þegar verkefnið hófst (mynd 1), tvö í vestur hluta Víkurfjöru, þrjú á milli sandfangaranna tveggja, og eitt austan við sandfangarana. Nemendur mæla sniðin með nákvæmu GPS tæki og er punktur tekinn þar sem halli fjörunnar breytist. Með slíkum mælingum er yfirborð fjörunnar mælt (mynd 2 og 3) við hvert snið sem eru síðan nýttar til að reikna út breytingar á breidd og rúmmáli fjörunnar við hvert snið, sem síðan segja til hvort fjaran hafi verið stöðug á milli mælinga eða ekki (töflur 1-6, mynd 4).

Allir árgangar í Víkurskóla koma að rannsókninni en nemendur í 5.-10. bekk mæla sniðin ásamt því að taka ljósmyndir, sýni og loftmyndir, en 1.-4. bekkur stundar sjálfstæðar rannsóknir í fjörunni, meðal annars á sandinum og dýralífinu sem þar er að finna.

Niðurstöðurnar úr rannsóknarverkefninu munu síðan geta sagt til um stöðugleika strandarinnar við Vík, hvernig ströndin aðlagar sig að breyttum aðstæðum, hvernig fjaran jafnar sig eftir storma og hver langtíma þróun strandarinnar gagnvart landbroti sé. Nemendur munu koma til með að kynna niðurstöður sínar hér fyrir neðan og eru þær uppfærðar eftir hverja mælingu, og ljósmyndirnar sem nemendur taka á meðan mælingum stendur má sjá hér