Strombólskt gos
18. apríl 2010 endaði fyrsti fasi gossins og við tók annar, en þá breyttist gosið frá því að vera sprengigos í jökli yfir í það að vera Strombólískt gos. Strombólísk eldgos eru tiltölulega afllítil eldgos og einkennast bæði af hraunrennsli og gjóskumyndun sem þeytist frá gosstaðnum vegna sprenginga. Stærri gjóskubrotin byrja að byggja upp gjallkeilu (gígur) en fínni gjóskan berst burt frá gosstöðinni með gosmekkinum. Sprengingarnar verða vegna uppbyggingar á gasþrýstingi í efsta hluta hraunsins í gígnum og geta liðið frá sekúndum og upp í nokkrar mínútur á milli sprenginga.
Ástæðan fyrir þessari breytingu er tvíþætt, annarsvegar var ísinn í og við gosstöðvarnar að mestu horfinn vegna bráðnunar frá gosinu, og komst vatn þar af leiðandi ekki í gossprunguna, og hins vegar sú að kísil innihald kvikunnar minnkaði, en það veldur minni sprengivirkni. Krafturinn í gosinu minnkaði töluvert í þessum fasa en þó var áætlað hraunflæðið um 20-50 tonn á sekúndu. Á þessu stigi var gosið flokkað sem blandgos, þar sem hvorki gjóska né hraun náði að vera meira en 95% af heildarmagni gosefna sem hafði verið framleitt í gosinu. Gjóskan sem myndaðist í þessum fasa var hins vegar mun grófari og barst ekki jafn hátt upp í andrúmsloftið með gosmekkinum. Gosmökkurinn var mun minni í þessum fasa, náði lægra upp í andrúmsloftið og öskuinnihalds hans minnkaði mikið og varð því mun ljósari en hann hafði verið áður.
Sprungan sem opnaðist 15. apríl tók nú við sem aðal gossprungan, og var virknin bundin við hana til loka gossins, og hlóðst þar upp nokkuð hár gjallgígur. Hraunið sem rann í þessum hluta gossins rann um 3 km leið frá gosstöðvunum og niður með Gígjökli og bræddi mikið af honum. Stórt og langt skarð myndaðist í gegnum hann þar sem hraunið rann og hefur jökullinn ekki enn náð að jafna sig af því í dag, enda styttist jökullinn talsvert og brotnaði mikið upp. Bráðnun jökulsins jók aftur flæði vatns út í Markarfljót, en þó urðu engin stórflóð vegna þess, en til gamans má geta að vatnið var um 11°C þegar það kom undan jöklinum.
Þessi fasi stóð yfir til 4 maí, En dagana áður hafði sprengivirkni í gígnum aukist töluvert og átti eftir að aukast enn frekar, sem markar upphaf þriðja fasans.
Fínkornótt móberg, eða móbergstúff, myndast í eldgosum þar sem kvika snöggkólnar vegna snertingar við vatn og tætist í sundur og myndar glerkennda gjósku. Gjóskan, sem er oft fínkornótt og dökk (aska), sest til og límist síðan saman og myndar fínkornótt móberg.
Móbergsmyndunin á Íslandi er það móberg sem myndast hefur vegna eldgosa undir jöklum eða í sjó á síðari hluta ísaldar, eða fyrir 0,78-0,01 milljónum ára. Flatarmál mynduninnar er um 11.200 km2 og er að finna á öllum núverandi virkum gosbeltum landsins. Í móbergsmynduninni er ekki eingöngu að finna móberg, þar sem grunneiningar myndunarinnar eru einnig bólstraberg, innskot og hraunþekjur. Þá eru móbergshryggir og móbergsstapar algengir í mynduninni og má sjá mörg dæmi af þeim innan Kötlu jarðvangs. Þar má m.a. oft finna mismunandi jarðlög móbergsmyndunarinnar, t.d. kubbaberg, stuðlaberg, móberg og brotaberg (þursaberg). Jarðlögin geta öll myndast í sama gosinu, en við mismunandi aðstæður í gosinu sjálfu.
Móbergið myndast þegar kvika snöggkælist við gos undir jökli eða í sjó, en þá tvístrast kvikan og myndar gosösku í staðin fyrir hraun. Gosaskan sest síðan til í kringum gosopið og nefnist þá túff. Túffið ummyndast fljótlega þannig að það límist saman og myndar berg, sem er þá kallað móberg. Brotabergið myndast við sömu aðstæður, en þegar tvístrun kvikunnar er ekki eins öflug þannig að hraunbrot setjast með í öskunni. Kubbaberg verður til við hraða kólnun á hrauni, hrauni sem gæti bæði verið í innskoti í móberginu eða í hraunflæði þegar vatn nær ekki lengur að komast að gosopinu. Stuðlabergið myndast við sömu aðstæður en við hægari kólnun en við myndun kubbabergs, en oft má sjá stuðlaberg annað hvort fyrir neðan eða ofan á kubbabergi.