Gos undir Jökli
Áður en gosið byrjaði var töluvert um jarðskjálfta og um kl. 01:15 var kvika komin upp á yfirborðið undir jöklinum og myndaðist þar um 1,8 km löng gossprunga innan öskjunnar, en þó var ekki samfelld virkni á henni. Þykktin á jöklinum fyrir ofan sprunguna var um 150-200 metrar, en ísbráðnunin var nokkuð hæg til að byrja með. Þá opnaðist einnig stutt sprunga rétt sunnan við öskjuna, en virkni á henni var ekki langlíf. Um kl. 05:55 sömu nótt braust gosið í gegnum ísinn og sást þá gosmökkur rísa frá jöklinum.
Þegar gýs í jökli verður svokallað sprengigos vegna samspils kviku og bráðvatns frá jöklinum. Kvikan hvellsýður vatnið, sem þenst út og breytist í gufu, en við það tvístrast kvikan og sprengingar verða við gosopið. Við sprengingarnar tætist kvikan í gjósku sem þeytist út frá gosrásinni. Fínna efnið, askan, berst að miklu leyti upp í andrúmsloftið með gosmekkinum, en stærri agnirnar þeytast í allar áttir í kringum gosopið og byrja að byggja upp gíg. Askan fellur svo úr gosmekkinum líka, að mestu nálægt gosstöðinni, en hluti hennar getur borist langar leiðir. Við gos undir jökli myndast einnig oft mikil jökulhlaup, þegar bráðvatnið frá jöklinum brýst undan jöklinum og flæðir í átt til sjávars.
Krafturinn í gosinu jókst með deginum og náði gosmökkurinn upp í um 10 km hæð seinna um daginn og olli miklu öskufalli, sérstaklega austan og sunnan megin við Eyjafjallajökul. Ný gossprunga uppgötvaðist 15. apríl, aðeins vestan við sprunguna sem opnaðist fyrst innan öskjunnar, og var mesta virknin á henni út gosið. Nýja sprungan opnaði annað op í jökullinn en virknin í gosinu byrjaði síðan að dvína þann 18. apríl og markar það lok fyrsta fasans í gosinu.