Gos í Eyjafjallajökli
Gos í Eyjafjallajökli sjálfum hófst síðan 14. apríl 2010 þegar gossprungur opnuðust í öskjunni. Gosið var undir jöklinum og því varð sprengigos sem myndaði mikið af ösku og háan gosmökk. Við upphaf gossins var skýjahula og þoka yfir Eyjafjallajökli og sást ekki til gossins fyrr en seinni partinn þann 14. Apríl, þegar skýjahulunni létti í smá stund. Myndin sem hér sést var tekin af Ólafi Eggertssyni, bónda á Þorvaldseyri, þegar skýjahulunni létti og er fyrsta ljósmyndin af gosinu sem tekin var af jörðu niðri. Gosið í Eyjafjallajökli átti eftir að standa yfir frá 14. apríl til 22. maí, eða í 39 daga, og er skipt niður í fjóra fasa eftir því hvernig virkni var í gosinu.