Gos í Eyjafjallajökli
Gos í Eyjafjallajökli sjálfum hófst síðan 14. apríl 2010 þegar gossprungur opnuðust í öskjunni. Gosið var undir jöklinum og því varð sprengigos sem myndaði mikið af ösku og háan gosmökk. Við upphaf gossins var skýjahula og þoka yfir Eyjafjallajökli og sást ekki til gossins fyrr en seinni partinn þann 14. Apríl, þegar skýjahulunni létti í smá stund. Myndin sem hér sést var tekin af Ólafi Eggertssyni, bónda á Þorvaldseyri, þegar skýjahulunni létti og er fyrsta ljósmyndin af gosinu sem tekin var af jörðu niðri. Gosið í Eyjafjallajökli átti eftir að standa yfir frá 14. apríl til 22. maí, eða í 39 daga, og er skipt niður í fjóra fasa eftir því hvernig virkni var í gosinu.
Stuðlaberg myndast þegar storkuberg storknar hægt og rólega, en þegar kvikan eða hraunið kólnar dregst það saman og klofnar í stuðla. Við kólnunina myndast lárrétt spenna í berginu, þar sem rúmmálið dregst saman, og sprungur byrja að myndast sem vaxa niður í gegnum berglagið og mynda stuðlana. Láréttu rákirnar sem má sjá á stuðlunum myndast vegna framrás sprungunnar í gegnum bergið niður á við. Stuðlarnir eru hornréttir á kólnunarflötinn, þ.e.a.s. þeir liggja í þá átt sem kælingin kom frá og þá lóðréttir í hrauni (kæling ofan og neðan frá), láréttir í gangbergi (kæling frá hliðum), geisla út frá miðju í bólstrabergi (kælingin úr öllum áttum) og getur fengið margbreytilega stefnu í basalt eitlum í móbergsfjöllum (kæling frá óreglulegum fleti). Stuðlarnir eru oft sexstrendir, en geta haft frá þremur og upp í 12 horn. Stuðlaberg er algengt í basalti en mun óalgengara í kísilríkara bergi.