Goslok
Gígurinn í Eyjafjallajökli nokkrum mánuðum eftir gosið og sjá má hversu mikil vatnsgufa stígur enn upp frá gosstöðvunum sem og illa farinn jökulinn allt í kring. Ljósmyndin er tekin 16. september 2010 af Guðnýju Valberg, bónda á Þorvaldseyri, í þyrluflugi yfir eldstöðvarnar. Því voru liðnir fjórir mánuðir frá goslokum en endanlegum goslokum var þó ekki lýst yfir fyrr en 28. október.
Jökulberg er samlímt berg úr jökulurð sem varð til vegna rofs jökla og skriðjökla á berggrunni og fjallshlíðum. Mikið getur verið af bergmylsnu undir, í og ofan á skriðjöklum og kallast jökulruðningur. Bergmylsnan er bæði tilkomin vegna grjóthruns sem lendir á jöklunum og vegna rofs á berggrunninum undir jöklum, en getur einnig verið gjóska. Jökullinn ber ruðninginn með sér og myndar hann oft svört eða dökk grá, þykk lög ofan á sporði jökulsins áður en efnið hleðst upp í jökulgarða fyrir framan jökulinn. Ruðningurinn getur haft áhrif á afkomu jökla þar sem hann hraðar bráðnun ef hann er þunnur (1-2 cm) en hægir á bráðnun jökulsins því þykkari sem hann verður. Ef jökulruðningurinn grefst undir nýjum berglögum, t.d. hrauni, þá getur ruðningurinn farið að límast saman og á endanum myndað berg og berglög.