Eldingar í gosmekkinum
Miklar goseldingar geta myndast í gosmekkinum og eru oft mikið sjónarspil. Elding myndast vegna mismunandi hlaðinna agna innan gosmakkarins. Hleðslan getur myndast með nokkrum mismunandi ferlum og aðstæðum í mökkinum, svo sem vegna ísagna í mekkingum, núningi sem myndast við þegar gjóskubrot rekast saman (og ís ef hann er til staðar), sundrun gjóskuagna, geislavirkri hleðslu gosefna og hæðin á mekkinum spilar líka inn í. Mikil hætta getur staðið af goseldingum og geta slegið niður í tugi kílómetra fjarlægð frá gosstöðinni. Það á sérstaklega við vegna eldgosa í Kötlu, en tveir létus í gosinu árið 1755 þegar eldingu sló niður í um 30 km fjarlægð frá Kötlu. Þá hafa eldingar vegna gosa í Kötlu líklega drepið mikið af búfénaði í gegnum aldirnar.
Í gosinu í Eyjafjallajökli var mikið um vatn, ís og gjósku í mekkinum, sérstaklega í fasa I og III, og myndaðist því kjör aðstæður fyrir eldingar að myndast. Þó virðist hæðin á mekkinum og -20°C jafnhitalínan í andrúmsloftinu hafa skipt mestu máli hvað varðar myndun eldinga í gosinu. Ef mökkurinn var hár og jafnhitalínan lágt í andrúmsloftinu, sem stuðlaði að því að efsti hluti makkarins var kaldari en ella, urðu eldingar tíðari. Á meðan á gosinu stóð mældust 790 eldingar, flestar í fasa I og III þar sem hámarkstíðnin var 17. apríl og 16. maí. Megnið af eldingunum urðu nærri gígnum, í innan við 3 km fjarlægð frá honum, en sem betur fer ullu þær engum skaða.
Oxað berg getur myndast í bergi bæði á gostíma og vegna efnaskipta við súrefnisríkt grunnvatn seinna meir. Járnið í berginu tekur þá upp eina súrefnisfrumeind í viðbót og fær oft á sig rauðleitan blæ. Steinninn hér er basalt og í basalti er járn bundið sem oxíð og silíkat. Járnhlutfallið í basalti er ekki mjög hátt, nokkur prósent, og er hematít oxíð af þrígildu járni. Hematítið eru lítil korn í grunnmassa basaltsins, en gefa því engu að síður þennan rauða lit. Oxunin á steininum varð líklega á gostíma eða stuttu eftir hann, og var það járnið sem þegar var í kvikunni sem oxaðist.