Berglind Sigmundsdóttir framkvæmdastjóri lætur af störfum

Í dag, miðvikudaginn 31. maí 2023, lætur Berglind Sigmundsdóttir af störfum sem framkvæmdastjóri Kötlu jarðvangs og við það tilefni vill jarðvangurinn aðeins rifja upp störf hennar.

Berglind hóf störf hjá jarðvanginum árið 2017, sem verkefnastjóri, en tók við sem framkvæmdastjóri árið 2018 og hefur síðan stýrt jarðvanginum. Meðal hennar fyrstu verkefna sem verkefnastjóra var að setja upp jarðfræðisýningu um Kötlu jarðvang, sem er til sýnis í Kötlusetri, ásamt því að aðstoða við úttekt UNESCO á jarðvanginum það sama ár. Þá fékk jarðvangurinn grænt spjald, sem þýðir að hann heldur UNESCO stimplinum í fjögur ár, og hún stýrði einnig jarðvanginum í gegnum úttekt UNESCO árið 2021 þar sem jarðvangurinn fékk aftur grænt spjald. Þá hefur Berglind stýrt og komið að fjölmörgum verkefnum fyrir jarðvanginn, en þar má m.a. nefna Kötluráðstefnuna árið 2018 í tilefni 100 ára afmælis síðasta goss í Kötlu, vinna við   þýðingu á áfangastaðaáætlun Kötlu jarðvangs, uppsetningu og stýringu á gestastofu Kötlu jarðvangs á Þorvaldseyri, hinum árlegu jarðvangsvikum Kötlu jarðvangs, greinaskrif fyrir jarðvanginn, komið að fyrstu bókaútgáfu jarðvangsins á bókinni Undur yfir dundu sem Már Jónsson skrifaði,  og sótt fundi fyrir hönd jarðvangsins bæði innanlands og utan. Þá hefur jarðvangurinn fengið fjölda styrkja með hana í forsvari, og má m.a. nefna um 36 milljón króna styrk frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir nýjum útsýnisstað við Þorvaldseyri og 8 milljón króna styrk frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga fyrir svæðismörkun jarðvangsins. Þá hefur hún einnig stýrt og komið að fjölda erlendra verkefna sem jarðvangurinn hefur tekið þátt í, m.a. Interreg-NPA Drifting Apart verkefnið, Horizon 2020 Ruritage verkefnið, Nordplus Geoheritage verkefni með FAS, og NORA GEOfood verkefninu.

Ljóst er að Katla Jarðvangur hefur styrkst mikið undanfarin ár undir forystu Berglindar og skilur hún eftir sig gott bú. Það verður því mikill missir að henni og vill jarðvangurinn hér með þakka Berglindi fyrir frábær störf og óskar henni velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi.