Skaftá er blönduð á, jökulá með lindaráhrifum

Skaftá

Skaftá er blönduð á, jökulá með lindaráhrifum

Skaftá

Skaftá er ein af stóru jökulvötnunum hér í sveit. Hún er vatnsmikil og löng, en vegalengd hennar frá upptökum til ósa eru um 115 kílómetrar. Skaftá er blönduð á, jökulá með lindaráhrifum. Aðalupptök jökulvatnsins eru í Skaftárjökli í Vatnajökli, skammt austan Langasjávar, en fljótlega bætist lindarvatn í hana úr Langasjó um Útfall. Skaftá er jökullituð að sumarlagi en að vetri er hún að jafnaði tær. Efsti bær við Skaftá er Skaftárdalur en vatnasvið árinnar þar er um 1400 km² og meðalrennsli um 115 m³/s. Ofan Skaftárdals falla til Skaftár fjöldi áa og lækja, þær helstu eru Grjótá, Hellisá og Nyrðri- og Syðri-Ófæra sem allar eru bergvatnsár. Neðan við Skaftárdal tekur Skaftá að breiða úr sér og greinist síðan í tvær meginkvíslar. Vestan megin er Eldvatn eða Ása-Eldvatn sem rennur vestur með Skaftártungu og yfir í Kúðafljót. Austar rennur svo sjálf Skaftá sem sveigir austur með Síðu, framhjá Kirkjubæjarklaustri og loks til sjávar um Veiðiós. Hluti Eldvatns og Skaftár kvíslast um gropið hraunið og heita þar Ásakvíslar annarsvegar og Árkvíslar hinsvegar en þær hafa tekið nokkrum breytingum á síðari árum vegna vegagerðar. Hluti þess vatns sem rennur í hrauninu hverfur ofan í það og kemur fram sem lindavatn við suðurjaðar Skaftáreldahraunsins meðal annars Eldvatn í Meðallandi.

Jökulhlaup eru algeng í Skaftá en að jafnaði hleypur áin á tveggja ára fresti. Þeim fylgir mikið vatn sem flæmist víða um á láglendi með gríðarlegum framburði. Stærð Skaftárhlaupa eru breytileg en rennsli getur náð allt að 1500 m³/s hjá Skaftárdal í stærstu hlaupum. Til samanburðar hafa stærstu hlaup sem sögur fara af á Íslandi, verið í Kötlugosum og hefur hámarksrennsli þeirra verið áætlað allt að 300.000 m³/s. Skaftárhlaup eiga upptök sín í Skaftárkötlum undir Vatnajökli, norðvestur af Grímsvötnum. Hlaupvatnið er bræðsluvatn frá jarðhita sem safnast fyrir í kötlunum og hleypur fram þegar katlarnir fyllast, jökullinn lyftist og vatnið ryður sér braut undir ísinn.

Samgöngur fyrr og nú

Skaftá og Skaftáreldahraun þóttu miklir farartálmar hér á árum áður. Samgöngur í þessum sveitum breyttust lítið frá því á landnámsöld allt fram á þriðja tug síðustu aldar á meðan hestar voru einu farartæki á landi. Meðan engar ár voru brúaðar varð að treysta á hestinn og hæfni vatnamanna en svo voru þeir nefndir sem slyngir voru í því að velja vöð á straumvötnum. Reyndi það bæði á glöggskyggni og dirfsku manna og á fótvissi og traustleika hestsins.

Áður en byrjað var að brúa voru ferjur á fjórum stöðum. Yfir Skaftá hjá Skaftárdal og Kirkjubæjarklaustri, yfir Ása-Eldvatn hjá Svínadal og yfir Eldvatn hjá Fljótum í Meðallandi. Árið 1903 var Skaftá brúuð við Kirkjubæjarklaustur og stuttu síðar yfir Ása-Eldvatn. Á svipuðum tíma, eða um 1910, var byrjað að ryðja vegi yfir Skaftáreldahraun. Öld bifreiða gekk í garð rétt um 1930 hér í Vestur-Skaftafellssýslu og þurfti þá að huga að vegabótum og brúargerð á annan hátt en áður hafði tíðkast. Eftir ýmsar tilfæringar á brúargerð var ákveðið að veita Ásakvíslum í faðm Eldvatnsins með miklum fyrirhleðslum en það fór ekki betur en svo að undirstöður brúarinnar ásamt henni sjálfri skolaði burt í vatnavöxtum. Í kjölfarið þvarr árennsli næringarríks jökulvatns Ásakvísla svo landið þornaði og uppblástur gerði vart við sig.

Samspil manns og náttúru

Óhætt er að segja að erfitt er að beisla náttúruöflin og sannast það kannski best hér í sveit þar sem jökulvötn, sandstormar, hraunflóð og öskufok eru stöðugt að móta landið. Líklega hafa engar byggðir hér á landi orðið fyrir annarri eins landeyðingu og Skaftafellssýslur frá því að menn hófu hér búsetu. Þá er fjölbreytni landslags og gróðurfars mikil, frá jökli til sjávar, og eru þar gróðursælar vinjar og örfoka auðnir oft hlið við hlið. Gjöful gróðurlönd hafa horfið í flaum jökulvatnanna eða horfið undir hraun og ösku svo að byggð hefur lagst af. En það styttir alltaf upp um síðir og þannig hafa skipst á skin og skúrir í sögu héraðsins og eyðingaröflin stundum aukið hagsæld þeirra sem tókst að þrauka