It is possible to walk around behind Seljalandsfoss

Seljalandsfoss, Gljúfrabúi

Hægt er að ganga bak við Seljalandsfoss

Seljalandsfoss og Gljúfrabúi

Seljalandsfoss

Seljalandsfoss er í ánni Seljalandsá sem á upptök sín á Hamragarða- og Seljalandsheiði. Fossinn sjálfur er um 62 metra hár og hefur myndað fallegt lón undir sér sem heitir Kerið (eða Fossker), þar sem finnst sjógenginn fiskur, bæði sjóbleikja og sjóbirtingur. Seljalandsfoss fellur fram af fornum sjávarhömrum, en hamrarnir mynduðust við og eftir lok síðasta kuldaskeiðs ísalda, þegar afstæð sjávarstaða var mun hærri en nú. Þá gróf sjávaraldan inn í Eyjafjöllin og myndaði hamrana, en síðan þá hefur afstæð sjávarstaða lækkað og flatlendi myndast við Eyjafjöll, og því eru hamrarnir nú langt inn í landi. Hamrarnir sjálfir við Seljalandsfoss eru skemmtilega lagskiptir, en við fossinn efst er fallegt hraunlag, en fyrir neðan eru hamrarnir að mestu úr móbergi, misgrófu þó, og oft með fallega lag- og litaskiptingu. Það er því ekki óvitlaust að dást að hömrunum líka þegar fossinn er sóttur heim, þrátt fyrir að aðdráttarafl fossins sé eflaust mun meira fyrir flesta.

Gljúfrabúi

Gljúfrabúi fellur úr Gljúfurá en hún á upptök sín rétt norðan við Tröllagil á Hamragarðaheiði. Áin er lindá og er heldur vatnsminni en nágranni hennar Seljalandsá. Áin rennur frá Tröllagilsmýri, fagurri og gróðursælli mýri í heiðinni. Þegar áin kemur fram úr mýrinni rennur hún við norðurjaðar hrauns sem myndaðist við eldsumbrot í Eyjafjallajökli við lok síðasta kuldaskeiðs fyrir um 9.000 árum. Á þessu svæði má finna nokkra smáfossa í ánni.

Gljúfrabúi, sem er um 40 metra hár, er í landi eyðijarðarinnar Hamragarða sem Skógræktarfélag Rangæinga fékk að gjöf árið 1962 og er nú í eigu Rangárþings eystra. Ákveðin dulúð er yfir fossinum þar sem hann fellur ofan í djúpa gjá en framan við fossinn er mikill hamraveggur úr móbergi sem lokar fossinn af svo aðeins sést rétt efst í hann. Kletturinn sem lokar fossinn af kallast Franskanef. Áður fyrr töldu menn að hann og hamrarnir í kring væru bústaðir huldufólks. Hægt er að fara úr skónum og vaða ána inn gilið og er það mögnuð upplifun. Hafa skal varann á þegar farið er inn gilið því hætta er á grjóthruni. Fyrir neðan Franskanef er gömul baðþró og inn af þrónni er lítill hellir sem heitir Ömpuhellir eftir einsetukonu sem þar á að hafa búið. Fyrir ofan Ömpuhelli eru tvær hvilftir inn í bergið sem nefnast Efra og Neðra ból. Í Neðra bóli var fyrr á tímum þurrkaður þvottur en í Efra bóli voru þurrkuð reipi og má enn sjá snaga í berginu í báðum þessum bólum. Gljúfrabúi er friðlýstur sem náttúruvætti.

Gljúfrabúi, gamli foss!

gilið mitt í klettaþröngum!

góða skarð með grasahnoss!

gljúfrabúi, hvítur foss!

verið hefur vel með oss,

verða mun það enn þá löngum;

gljúfrabúi, gamli foss!

gilið mitt í klettaþröngum!

Úr „Dalvísu“ eftir Jónas Hallgrímsson