Svarta sandfjaran

Reynisfjara

Svarta sandfjaran

Reynisfjara

Reynisfjara liggur á milli Reynisfjalls og Dyrhólaeyjar og þykir sérstaklega falleg og tilkomumikil en jafnframt brimasöm og hættuleg. Þrátt fyrir það var hér töluvert útræði og á meðal þeirra sem héðan réru voru séra Jón Steingrímsson eldklerkur, sem þá var bóndi að Hellum í Mýrdal, og Sveinn Pálsson læknir og náttúrufræðingur.

Innan við Reynisfjöru er Dyrhólaós sem er allstórt ísalt lón og í hann renna nokkrar ár og lækir. Útfall Dyrhólaóss á það til að lokast og við það hækkar í honum (allt að 1 m) og jafnframt hættir sjór að flæða inn í hann og kallast það að ósinn sé uppi. Í Dyrhólaós eru nokkuð um leirur sem eru mikilvægir fæðuöflunarstaðir vaðfugla. Farfuglar sem eiga leið um Ísland á ferð sinni milli Evrópu og Grænlands eða Kanada njóta góðs af ósnum og endurnýja næringarforða sinn á leið á áfangstað. Í hörðum vorum gegna leirur sem þessar einnig lykilhlutverki í að tryggja íslenskum mófuglum lífsviðurværi.

Lundinn er algengur við Reynisfjöru yfir sumartímann og gerir sér meðal annars hreiðurholur í Reynisfjalli, í dröngunum og í Dyrhólaey. Talið er að stofnstærð lundans á Íslandi sé í kringum 2 milljónir para, og eru stærstu lundabyggðir heimsins í Vestmannaeyjum, en lundanum hefur fækkað mikið hér við land undanfarna áratugi og er kominn á lista yfir dýrategundir í bráðri hættu. Lundinn er þekktur fyrir litadýrðina sína, en lítill munur er á kynjunum en þó er karlfuglinn yfirleitt aðeins stærri.

Hætta! Óútreiknanlegar ólagsöldur í Reynisfjöru

Ólagsöldur eru stakar, stórar og óvæntar öldur sem eru tíðar í Reynisfjöru og geta verið mjög hættulegar fólki sem er of nálægt flæðarmálinu.

Ólagsöldur verða til í ölduhópum úti á hafi þar sem stakar öldur, sem ná síðan mun lengra upp í fjöruna en aðrar öldur, myndast. Stórar ólagsöldur geta komið á land í Reynisfjöru á 10-20 mínúta fresti. Ólagsöldur geta myndast við allar veður- og ölduaðstæður, en þær eiga það allar sameiginlegt að ná mun hærra upp í fjöruna en öldurnar á undan og koma fólki því yfirleitt að óvörum. Ólagsaldan getur þá fellt fólk um koll og sökkt þeim í sjó og sand, sem gerir það erfiðara um vik að standa upp og koma sér úr hættunni. Þegar aldan flæðir til baka getur hún síðan dregið fólk með sér út á haf. Það er góð regla að halda sig lengra frá sjávarmálinu en þú telur að sé nauðsynlegt og þá er gott að hafa það í huga að ef sjávarstaða er há og miklar öldur við ströndina, þá geta öldur náð upp að efstu hlutum fjörunnar.

Það sem þarf að hafa í huga þegar fjaran er heimsótt:

Fólk hefur látið lífið í fjörunni á undanförnum árum vegna þess að þau lentu í öldu, náðu ekki að standa upp og drógust síðan út á haf þegar aldan gekk til baka.

Ekki fara nálægt briminu

Ekki snúa bakinu í brimið

Börn eiga ávallt að vera í fylgd með fullorðnum

Ekki fara nálægt stuðlaberginu ef ölduhæð er mikil

Hafið í huga að sjávarstaða getur hækkað hratt þegar það flæðir að

Hallinn í fjörunni skiptir miklu máli Ef fjaran er flöt þá geta öldur náð mjög hátt upp í fjöruna, ef fjaran er brött getur verið erfitt að hlaupa upp fjöruna undan ólagsöldu