Móbergsfjallið

Reynisfjall

Móbergsfjallið

Reynisfjall

Reynisfjall er móbergsfjall innan eldfjallakerfis Kötlu og hefur myndast í eldgosi undir jökli og/eða í sjó á seinni hluta Ísaldar. Slík fjöll eru uppbyggð þannig að neðst í þeim er yfirleitt bólstraberg, síðan móberg, sem er oft skorið af göngum og innskotum, og að lokum eru hraunlög efst á þeim.

Bólstraberg myndast í upphafi gossins ef þrýstingurinn frá vatninu er hár, en þegar vatnsþrýstingurinn yfir gosopinu minnkar byrjar vatnið að blandast við kvikuna og sprengigos hefst. Sprengingarnar tæta hraunið og mynda gjósku, þar sem aska er fínasta efnið. Gjóskan byrjar að mynda lög í kringum gosopið og límist síðan saman með tímanum og myndar móberg. Móbergið heldur áfram að byggjast upp en á endanum byrjar hraun að renna úr gígnum, ef vatn kemst ekki lengur að gosopinu, og hylja hraunlög þá yfirleitt topp fjallsins.

Innskot og gangar eru algengir í móbergsfjöllum og myndast á meðan á gosinu stendur þar sem kvika þrýstist inn í móbergið. Þar kemst vatn ekki að kvikunni og myndast því oft stuðlaberg, en stuðlarnir myndast við hæga storknun kviku sem dregst saman við kólnun og klofnar í stuðla sem oft eru sexstrendir. Stuðlarnir myndast hornrétt á kólnunarflötinn, og geta því stuðlarnir snúið á marga vegu vegna margbreytilegra kólnunarflata. Síðan Reynisfjall myndaðist hafa roföflin unnið mikið á því, sérstaklega hafaldan, og hafa myndast margvíslegar fallegar jarðmyndanir vegna rofsins ásamt því að móta fjallið sjálft.

Standberg er allt að því lóðréttur klettaveggur og myndast þegar sjávaralda grefur undan bergi við ströndina. Við það veikist bergið fyrir ofan rofið og hrynur niður í stórum skriðum. Skriðurnar geta hægt á rofi klettaveggjarins um tíma, en öldurnar vinna fljótlega á fína efninu og skola því út á haf. Stærri björgin sitja um sinn, en á endanum brýtur aldan þau einnig niður og rofið hefst á ný og þannig heldur hringrásin áfram.

Sjávarhellar finnast gjarna í standbergi og myndast þegar sjávaralda byrjar að rjúfa berg þar sem veikleiki hefur verið til staðar í berginu og sverfur inn í bergið. Hellarnir myndast í bergi sem er nægjanlega sterkt til að halda uppi þakinu á hellinum, og hrynur því ekki niður eins og þegar standberg myndast. Nokkrir sjávarhellar eru við Reynisfjöru og er stærsti þeirra Hálsanefshellir sem er vestast í stuðlaberginu í fjörunni. Hrunhætta er í hellunum í Reynisfjöru þannig að fara ætti um þá af gát!