Sandauðnin

Mýrdalssandur

Sandauðnin

Mýrdalssandur

Mýrdalssandur er sandauðn suðaustan við Mýrdalsjökul sem hefur byggst upp af framburði Kötluhlaupa. Við hvert jökulhlaup sem fer yfir sandinn, hækkar landið og strandlínan færist út. Strandlínan er t.d. talin vera um 2,5 km lengra til suðurs en hún var árið 1660 og þykkt sandsins er í kringum 60 metrar við Hjörleifshöfða og eykst þykktin til norðurs og er um 120 metrar við Hafursey. Framburður hlaupanna er að miklu leyti glerkenndur vikur og sandur, og er það hátt glerinnihald sem gefur sandinum þennan svarta blæ. Kötlutangi er syðsti oddi Mýrdalssands og Íslands, en mikið hefur rofið úr tanganum síðustu áratugi. Eftir storma eru oft góðar opnur á ströndinni þar sem sjá má setlagið sem myndaðist í jökulhlaupinu árið 1918 (mynd 2). Mýrdalssandur var lengi vel erfiður yfirferðar, m.a. vegna fjölda áa, sandbleytu og sandfoks. Í dag hefur stór hluti sandsins verið græddur upp og hefur það minnkað sandfok til muna, en enn myndast þó stórt rykský yfir sandinum í stormum.