Langisjór er meðal tærustu fjallavatna á Íslandi

Langisjór

Fögrufjöll, Skuggafjöll & Grænifjallgarður

Langisjór

Langisjór er stöðuvatn á Skaftártunguafrétti, um 20 km langt og nær á sumum stöðum 2 km breidd. Vatnið er suðvestan Vatnajökuls milli Tungnárfjalla og Fögrufjalla í fallegu og sérkennilegu umhverfi. Flatarmál þess er 27 km², mesta dýpi þess nær 75 m og vatnsborðið er í 670 metrum yfir sjávarmáli. Fjallasýn við vatnið er stórfengleg en við syðri enda vatnsins stendur Sveinstindur (1090 m) sem af mörgum er talinn eitt besta útsýnisfjall landsins. Þaðan má í góðu skyggni til dæmis sjá Lakagíga, Skaftáreldahraun, Öræfajökul og Heklu. Langisjór er meðal tærustu fjallavatna á Íslandi.