Systrafoss, Klausturheiði, Systravatn og Sönghellir

Systrastapi

Systrafoss, Klausturheiði, Systravatn og Sönghellir

Systrastapi

Systrastapi er klettastapi vestan við Klaustur. Þjóðsaga segir að uppi á stapanum sé legstaður tveggja klaustursystra sem áttu að hafa verið brenndar á báli fyrir brot á siðareglum. Önnur hafði selt sig fjandanum, gengið með vígt brauð fyrir náðhúsdyr og lagst með karlmönnum. Hin hafði talað óguðlega um páfann. Eftir siðaskiptin var seinni nunnan talin saklaus og á leiði hennar óx fagur gróður en á leiði hinnar seku var gróðurlaust.

Systravatn er stöðuvatn uppi á fjallsbrúninni fyrir ofan Klaustur. Þangað gengu nunnurnar oft til að baða sig. Eitt sinn voru tvær þeirra að baða sig og sáu þær þá hönd koma upp úr vatninu með fögrum gullhring. Þær gripu til handarinnar en hurfu með henni niður í vatnið. Systrafoss heitir þar sem Fossá fellur úr Systravatni fram af fjallsbrúninni fyrir ofan Kirkjubæjarklaustur, ofan í Fossárgil.