Einn fallegasti foss Íslands

Skógafoss

Einn fallegasti foss Íslands

Skógafoss

Skógafoss er í Skógum undir Eyjafjöllum, um 48 km frá Hvolsvelli. Hann er í Skógá sem er vatnsmikil og fellur vatnið nokkuð jafnt fram af 62 metra háum hamrinum á allbreiðum kafla, sem gerir fossinn mjög tignarlegan. Hægt er að ganga inn smá gljúfur alveg að hylnum undir fossinum. Skógafoss og áin fyrir ofan og neðan eru friðlýst sem náttúruvætti.

Þjóðsagan segir að Þrasi landnámsmaður hér á Skógum hafi falið gull sitt í kistu undir fossinum, þar sem illfært væri að henni. Lengi vel mátti sjá í annan gafl kistunnar undir fossinum og einhverju sinni fóru þrír menn frá Skógum og vildu freista þess að ná kistunni. Við illan leik komust þeir það nálægt kistunni að þeir komu krók í járnhring þann er var á hlið kistunnar. Var nú tekið á, en kistan var það þung að járnhringurinn losnaði af kistunni og lauk þar með þeirri ferð. Járnhringurinn var síðan settur á kirkjuhurðina í Skógum og er nú geymdur á Skógasafni.