Stærsti manngerði hellirinn á Íslandi

Rútshellir

Stærsti manngerði hellirinn á Íslandi

Rútshellir

Rútshellir er af mörgum talin elstu manngerðu hýbýli á landinu. Allir sem eiga leið um Fjöllin ættu að gefa sér tíma og skoða þessar merku minjar. 

Sagnir eru um að hér hafi búið risi er nefndist rútur. Sennilega hefur hann verið kallaður Hrútur en nafnið nútímavæðst í núverandi heiti. Sagnir um búsetu í hellinum ná allt aftur til Rúts á Hrútafelli. Þrælar hans voru líkast harla ánægðir með húsbónda og ráðgerðu aðför að Rúti til að vega hann með spjótum. Rútur bjó sjálfur í afhelli út úr aðalhellinum. Boruðu þeir gat upp í bæli Rúts og ætluðu að vega að honum hann þar. Er þeir réðust til atlögu, varð Rútur fyrri til og þrælarnir lögðu á flótta. Rútur elti þá alla uppi og hjó þá niður, einn af öðrum þar sem hann fann þá. 

Ýmsir hafa í gegnum tíðina rannsakað hellinn. Hans er getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1714. Hans er einnig getið í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1756 og í fornleifaskýrslu Ólafs Pálssonar prests í Eyvindarhólum frá 1818. Árið 1936 gerðu nasistar, sem þá voru við stjórnvölin í Þýskalandi, út leiðangur til að rannsaka hofrústir á Íslandi. Voru þetta menn frá Ahnenerbe sem var vísindaarmur SS-sveita nasista. Þeir skoðuðu hellinn mjög nákvæmlega.

Fyrir framan hellirinn er fjárhús frá fyrri hluta síðustu aldar en áður en það var byggt var hellirinn lokaður við hellismunnann með grjóthleðslu og timburþili. Gengið er inn eftir fjárhúsunum og þá er komið inn í aðalhellinn. Hann er rúmlega 15 metra langur og um það bil 2,5 metra hár að jafnaði. Mest breidd á aðalhellinum er um 5 metrar. Inni í aðalhellinum eru ýmis merki um verk manna; þar má finna í gólfi holur sem benda til að þar hefi verið tréstoðir og á hellisveggjum eru berghöld og bitaför víða. 
Eins og áður segir þá liggur stúka þvert á aðalhellinn. Tvö op eru úr aðalhellinum yfir í stúkuna. Annað er notað til að ganga úr aðalhellinum yfir í stúkuna en hitt er í lofti aðalhellisins og nær upp á svefnsillu Rúts þar sem þrælar hans lögðu til hans með spjótum.
Stúkan er ekki síður merkileg en aðalhellirinn. Mest lofthæð í stúkunni er 3,5 metrar, mest breidd er á fjórða metra og lengdin er um 5 metrar. Innst í henni er svo sylla í um 1,5 metra hæð frá gólfi. Sylla þessi er sögð hafa verið svefnstaður Rúts. Hún er mjög rúmgóð, á annan metra á breidd og um þrír metrar á lengd. Eins og áður segir er af syllunni gat niður í aðalhellinn. Þar er að finna sérlega merkar minjar um eldsmíði til forna. Í gólfi stúkunnar er nóstokkur sem var notaður til að snöggkæla járn sem verið var að hamra. Þar er líka aflþró þar sem eldsmiðurinn sat með fætur sína ofan í og svo er þar steðjastæði þar sem steðjinn lá í. Við enda stúkunnar er svo breitt op út úr henni en ekki mjög hátt. Þar er í hleðsla. 
Texti að hluta fengin frá: www.eyjafjoll.is

Hellirinn er friðlýstur. 

Smellið hér til að hlusta á viðtal við Gissur Gissurarson, bónda frá Drangshlíð undir Eyjafjöllum. Hann ræðir við Jón Samsonarson um sagnir og sögu Rútshellis.

- sótt af vef Ísmús; Íslenskur músík- og menningararfur.

Nánar um hellinn á vef mbl.is