Nauthúsagil er undir Eyjafjöllum

Nauthúsagil

Nauthúsagil er undir Eyjafjöllum

Nauthúsagil

Nauthúsagil er undir Eyjafjöllum. Líklega dregur gilið nafn sitt af því að þar hafi upphaflega verið nautahús frá Stóru-Mörk en áður fyrr var nautum beitt eins og öðrum geldfénaði. Síðar var svo hjáleigan Nauthús reist en hún lagðist í eyði um árið 1770. Nauthúsagil er einna þekktast fyrir reyniviðarhríslu sem vex á gilbarminum en stofnar hennar eru margir og hallast fram yfir gilið, sumir næstum láréttir. Hún er mjög tilkomumikil og fögur, sér í lagi þegar hún er í fullum blóma. Skammt frá hríslurótunum var lengi fjárból sem reynihríslan hefur fengið áburð frá. Sagan segir að í hríslunni sé helgur viður og þótti boða ólukku að skerða hana. Ekki er nákvæmlega vitað um aldur hríslunnar en árið 1937 brotnaði meginstofn hennar og var stofninn og stærstu greinar bútaðar niður og fluttar til byggða á átta hestvögnum. Bútur úr stofninum er varðveittur á Byggðasafninu í Skógum til vitnis um gildleika stofnsins en við aldursgreiningu reyndist tréð hafa verið eldra en 90 ára þegar það brotnaði. 

Gilið er þröngt og djúpt en hægt er að ganga þar inn með ánni nokkurn veginn þurrum fótum. Gengið er inn eftir gilinu þar til komið er að 2-3 metra háum fossi, en við hliðina á honum er möguleiki á að klifra upp bergið og halda lengra að enn hærri fossi sem er mjög tilkomumikill. Einnig er hægt að ganga upp með gilinu á gilbrúninni vestan megin þar sem sést vel yfir gilið og þriðja fossinn í röðinni, mjög formfagran. Þaðan blasir við fallegt útsýni yfir Markarfljótsaura, Stóra-Dímon og Fljótshlíð.

Jarðfræði

Nauthúsagil er grafið inn í móberg neðst en að ofan er kubbaberg. Efst í brúninni hangir svo hlýindaskeiðs hraun. Þessi samsetning jarðlaga heldur áfram inn eftir Merkurnesi og inn fyrir Innra-Akstaðagil. Mikið rof hefur orðið á þessu svæði af völdum vatns og vinda og móbergið því
mikið skorið í gil og skorninga. Þar sem kubba- og bólstrabergið er ráðandi er fyrirstaða við rofi meiri og hafa mótast þar ýmsar kynjamyndir.

Þjóðsagan um Nauthúsabræður

Einu sinni bjuggu þrír bræður og systir þeirra í Nauthúsum. Tveir þeirra voru miklir ribbaldar en sá þriðji góðmenni og féll hann fyrir hendi bræðra sinna. Systirin flúði til Stóradals og trúlofaðist bóndanum þar. Var það ribböldunum þvert um geð og strengdu þeir þess heit að ráða Stóradalsbóndanum bana. Einu sinni þegar Stóradalsbóndinn var að smala um veturinn og rak fé sitt út Merkurengi, þá var áll einn á Markarfljóti á ísi. Þeir bræður lögðu til hans svo hann varð að hörfa í fljótið. Bræðurnir fóru á eftir en drukknuðu, Stóradalsbóndinn komst hins vegar undan heill á húfi. Fátt var um fólk í Nauthúsum það sem eftir var vetrarins en þeir sem þar voru þóttust verða varir við þá bræður. Um vorið fékk systirin frænda sinn til að flytja að Nauthúsum. Um sumarið gerðist ekkert sögulegt fyrr en fór að dimma að nóttu, þá hófst þar mikill draugagangur. Nauthúsabóndi bað Stóradalsbónda um aðstoð og kom hann þangað kvöld eitt og var þar um nótt. Þá nótt var allt með kyrrum kjörum en um aftureldingu kom vinnumaður hans og sagði að mikill draugagangur hafði verið í Stóradal um nóttina. Nóttina eftir gerðu draugarnir aftur vart við sig í Nauthúsum. Það fór á sömu leið það sem eftir var af vikunni að þeir riðu húsum hverja nótt. Stóradalsbóndinn var fjárhagsmaður Stóradalskirkju. Kvöld eitt þegar hann var einn úti í kirkju kom annar draugurinn aftan að honum. Bóndi bað hann um að drepa sig ekki strax og sagði honum að stúlka ein í Mörk væri þunguð af hans völdum og myndi það barn hefna hans. Þeir skyldu því drepa hana næstu nótt og þá gjarna sig í leiðinni. Draugurinn samþykkti það og fór. Bóndi sótti stúlkuna og lét hana vera fyrir innan gráturnar í kirkjunni um nóttina. Síðan stökkti hann vígðu vatni um alla kirkjuna fyrir utan strimilinn inn gólfið. Þegar dimmt var orðið kom draugurinn inn gólfið og gekk bóndi á eftir honum og vígði strimilinn. Draugurinn komst ekki inn fyrir gráturnar og ætlaði því að ganga aftur fram gólfið en komst ekki fyrir vatninu. Draugsi hvarf þá niður um gólfið og rak bóndi kross þar sem hann sökk. Sá kross var lengi á kirkjugólfinu og sást draugsi ekki eftir það. Sagt er að þeir draugar sem eru neyddir niður komast ekki upp aftur nema þar sem þeir fóru niður. Af hinum draugnum var það að segja að hann gerði allt vitlaust þessa nótt og næstu nætur svo að bóndinn varð að flýja. Hefur Nauthús verið í eyði síðan og þykir reimt þar enn í dag.