Árið 2019-2020 vann jarðvangurinn með ráðgjöfum Alta að því að skoða betur hlutverk jarðvangsins og tækifærin sem fylgja því að vera hnattrænn UNESCO jarðvangur. Hver ávinningurinn væri af jarðvanginum fyrir ólíka hagsmunaaðila hans og hvernig hann yrði til. Haldnir voru þrír rýnifundir með eigendum og starfsmönnum jarðvangsins í þessari vinnu og að lokum var gefin út skýrsla (2020) um vinnuna, hún var svo kynnt á fundi í Vík. (sjá hér: A1438-023-U01-Katla-UNESCO-Global-Geopark-Greinargerd-Alta-462020.pdf (katlageopark.is)

Ein megintillagan í greinargerð Alta er að skýrari svæðismörkun (regional branding) sé mikilvæg til að leysa úr læðingi frekari ávinning af UNESCO vottuninni.  Það myndi nýtast til að draga betur fram sérstöðu svæðisins og koma henni betur til skila, sem myndi styrkja jarðvanginn og starfsemi hans og einnig þá sem tengjast honum.

 

Öflugt svæðismark skiptir miklu máli við að styrkja ímynd og stöðu svæða. Það getur laðað ákveðna markhópa inn á svæði og skapað fjölmörg tækifæri. Það getur styrkt markaðsstöðu fyrirtækja og aukið virði svæða, það skiptir einnig miklu máli við að efla samvinnu og samheldni fyrirtækja og stofnana innan jarðvangsins að geta tengst undir sterkum samnefnara.  Það veitir því ákveðin forskot í samkeppnisstöðu og eykur bæði staðarkennd og stolt þeirra sem tengjast svæðinu að hafa öflugt svæðismark.

 
Svæðismörkun áfangastaða getur þó verið jafn margslungin og áfangastaðir eru, og því eru fjölbreyttar leiðir til að vinna að henni. Því er nauðsynlegt að undirbúa vegferðina sem framundan er vandlega, þ.e. hvernig eigi að fara að því að útbúa sterkari svæðismark og hvað þurfi til. Til þess að svo sé hægt, þarf að byrja á að skoða betur núverandi stöðu, þ.e. hver er upplifun fólks af jarðvanginum í dag og hvernig er æskilegt að hún væri. Á árinu 2021 hefur jarðvangurinn og stjórn hans átt 4 fjarfundi með ráðgjöfum frá The Place Bureau og til frekari undirbúnings á vinnu svæðismörkunar verður byrjað á því að greina þessa tvo fyrrnefndu þætti á vinnustofu í haust (2021). Það mun svo nýtast við að móta næstu skref í vinnunni sem framundan er.
Branding Meeting
Stjórn jarðvangsins fundar með ráðgjöfunum tveim, Rosanna C. og Rosanna V.. 


Katla jarðvangur, hlutaðeigandi sveitarfélög og tengdir aðilar geta orðið sterkari og myndað öfluga heild undir sterku svæðismarki Kötlu hnattræns UNESCO jarðvangs. Þar sem lögaðilar svæðisins hafa skuldbundið sig til að vinna eftir heildrænni stefnu um sjálfbæra þróun og verndun svæðisins. Aldrei fyrr hefur verið eins aðlaðandi að búa fjarri fjölmennum borgum og í grennd við ósnortna náttúru. Í þessu felast ýmisskonar tækifæri fyrir íbúa, skóla og fyrirtæki.  Eins er búist við því að ferðamennskan eigi eftir að taka mikinn kipp í kjölfar heimsfaraldurs til landa eins og Íslands.  Netflix þættir Baltasar um Kötlu eru þegar farin að hafa áhrif á straum ferðamanna til jarðvangsins og áhuga þeirra á að fræðast meira um jarðminjar sem tengjast Kötlu. Við stöndum því á mikilvægum tímamótum – ekki bara sem jarðvangur heldur líka sem eitt öflugt svæði með þrjú sterk sveitarfélög sem ætla að marka jarðvanginn ekki bara sem fyrirmyndar áfangastað í ferðaþjónustu heldur líka sem UNESCO vottað svæði sem gott er að búa í, starfa innan og læra um.  



Katla jarðvangur mun á næstu tveimur árum (2021-2022) vinna að svæðismörkun til að leysa úr læðingi frekari ávinning af UNESCO vottunni. Verkefnið hefur verið styrkt um 8,0 mkr sem áhersluverkefni SASS og má lesa meira um það hér:

Sjá hér: https://www.sass.is/svaedismorkun-katla-unesco-global-geopark/