Víkurfjöruverkefnið
Víkurfjöruverkefnið
Katla jarðvangur og Víkurskóli, í samstarfi við Kötlusetur í Vík, hófu rannsóknarverkefni sem kallast Víkurfjöruverkefnið þann 12. janúar 2021. Verkefnið gengur út á að rannsaka strandlínu- og fjörubreytingar í Víkurfjöru á næstu árum með því að mæla sex snið í Víkurfjöru fjórum sinnum á ári, mæla staðsetningu fjörukambsins árlega, taka sandsýni úr fjörunni og mynda fjöruna við hverja mælingu.
Víkurfjöruverkefnið var styrkt af Sprotasjóði árið 2021. Katla jarðvangur og Víkurskóli vilja hér með koma þökkum til sjóðsins ásamt Jóhanni Guðlaugssyni sem lánar verkefninu TopCon GPS tækið sem nýtt er í mælingarnar.
Markmið mælinganna er að rannsaka stöðuleika þess hluta Víkurfjöru sem varin er af sandföngurum, ásamt því að nemendur kynnist því hvernig sé staðið að og fái reynslu í vísindarannsóknum. Á meðan verkefninu stendur munu nemendur Víkurskóla sjá um allar mælingar í fjörunni, en einnig sjá um úrvinnslu gagna, kornastærðargreiningu á sandsýnum, og taka lofmyndir með dróna. Nemendur munu því fá góðan grunn í mismunandi aðferðum, en slík reynsla mun vonandi nýtast þeim vel í framtíðinni. Verkefnið á einnig að auka skilning nemenda á strandumhverfum, sérstaklega sandfjörum eins og eru við Vík, sjávarstraumum, sjávarföllum, öldum, og áhrif jökulhlaupa úr Kötlu á fjöruna.
Sniðin sex voru sett upp í Víkurfjöru þegar verkefnið hófst (mynd 1), tvö í vestur hluta Víkurfjöru, þrjú á milli sandfangaranna tveggja, og eitt austan við sandfangarana. Nemendur mæla sniðin með nákvæmu GPS tæki og er punktur tekinn þar sem halli fjörunnar breytist. Með slíkum mælingum er yfirborð fjörunnar mælt (mynd 2 og 3) við hvert snið sem eru síðan nýttar til að reikna út breytingar á breidd og rúmmáli fjörunnar við hvert snið, sem síðan segja til hvort fjaran hafi verið stöðug á milli mælinga eða ekki (töflur 1-6, mynd 4).
Allir árgangar í Víkurskóla koma að rannsókninni en nemendur í 5.-10. bekk mæla sniðin ásamt því að taka ljósmyndir, sýni og loftmyndir, en 1.-4. bekkur stundar sjálfstæðar rannsóknir í fjörunni, meðal annars á sandinum og dýralífinu sem þar er að finna.
Niðurstöðurnar úr rannsóknarverkefninu munu síðan geta sagt til um stöðugleika strandarinnar við Vík, hvernig ströndin aðlagar sig að breyttum aðstæðum, hvernig fjaran jafnar sig eftir storma og hver langtíma þróun strandarinnar gagnvart landbroti sé. Nemendur munu koma til með að kynna niðurstöður sínar hér fyrir neðan og eru þær uppfærðar eftir hverja mælingu, og ljósmyndirnar sem nemendur taka á meðan mælingum stendur má sjá hér.
Mynd 1 sýnir staðsetningu sniðanna sex í Víkurfjöru sem nemendur mæla. Snið 1 og 1.5 eru í vesturhluta Víkurfjöru, snið 2, 3 og 4 eru á milli sandfangarana tveggja og snið 5 er austan við sandfangarana.
Mynd 2 sýnir mælingar nemenda á fjörunni. Hver mæling er táknuð með mismunandi lituðum línum og má sjá mælingamánuðinn efst á myndinni. Nemendur mæla yfirborð fjörunnar og síðan er hægt að reikna út breytingar á rúmmáli og breidd, en einnig má sjá á línunum hvort fjaran hafi orðið fyrir rofið eða bæst við efni í hana og hvort fjaran sé að styttast eða ekki.

Mynd 3 sýnir tvær síðustu mælingar nemenda í Víkurfjöru. Hver mæling er táknuð með mismunandi litum og má sjá mælingamánuðina í töflunni efst.
Til að skoða breytingar í fjörunni á milli mælinga er breidd fjörunnar í 1 m hæð reiknuð út ásamt rúmmáli sniðsins við hverja mælingu, og þær útkomur bornar saman við fyrri mælingar. Niðurstöðurnar má sjá í töflunum og gröfunum hér fyrir neðan.
Snið 1 hefur hægt og bítandi verið að bæta við sig í bæði breidd og rúmmáli síðan mælingar hófust og hélst nokkuð stöðugt nú milli mælinga. Til lengri tíma þá er sniðið að bæta við sig.
Snið 1.5 hefur einnig verið að bæta við sig hægt og bítandi, en hefur þó verið mun óstöðugra en snið 1 og breiddin og rúmmálið styttist og lengist nánast á víxl. Sniðið bætti örlítið við sig í mælingunni í mars og hafði þá sjaldan verið jafn breitt og með mikið rúmmál. Í maí hafði sniðið hinsvegar gengið aðeins til baka, en til lengri tíma þá er sniðið að bæta við sig.
Snið 2 byrjaði á að minnka nokkuð regluleg en tók síðan mikinn kipp á milli mælinganna í maí og september 2022. Síðan þá hafði breiddin og rúmmálið minnkað aðeins, en tekur nú annan stóran kipp í vexti í mælingunni í maí og hefur aldrei verið jafn rúmmalsmikið eða breitt. Til lengri tíma þá er sniðið að bæta við sig.
Snið 3 hefur þróast svipað og snið 2, þ.e.a.s. byrjaði á því að minnka nokkuð stöðugt en óx síðan frá janúar til september 2022 og minnkaði aðeins eftir það tímabil en vex nú aftur á milli mælinga. Til lengri tíma þá er sniðið að minnka við sig.
Snið 4 hefur verið tiltölulega óstöðugt og verið að vaxa og minnka til skiptis. Það minnkaði hins vegar nokkuð mikið á milli nóvember 2021 og maí 2022 og hefur sú minnkun haldist nánast en bætist þó við það talsvert nú. Til lengri tíma þá er sniðið hvorki að minnka né að auka við sig.
Snið 5 hefur verið að minnka hægt og þétt við sig síðan mælingar hófust, en þó má geta þess að fjaran var mjög breið og há þegar mælingar hófust. Sniðið eykur aðeins við sig síðan í síðustu mælingu en til lengri tíma þá er sniðið að minnka við sig.
Töflur 1-6 sýna útreikninga á breytingum á breidd og rúmmáli í fjörunni við sniðin sex.
Mynd 4 sýnir rúmmál (rauð lína) og fjörubreidd (blá lína) sniðanna úr töflum 1-6 sem sýna útreikninga á breytingum á breidd og rúmmáli í fjörunni við sniðin sex frá upphafi mælinga. Græna línan sýnir síðan þróun rúmmáls hvers sniðs, en ef hún fer hækkandi þýðir að rúmmálið sé að aukast frá fyrstu mælingu en ef hún fer lækkandi þá er rúmmálið að minnka.
Nemendur mæla einnig fjörukambinn einu sinni á ári og er það gert til að athuga stöðuleika fjörukambsins í Víkurfjöru, athuga hvort landbrot sé að eiga sér stað eða hvort kamburinn sé stöðugur eða að vaxa fram.
Fjörukamburinn hefur verið mældur þrisvar og má sjá mælingarnar á myndum 5 og 6. Eins og sjá má á mælingunum þá hafði fjörukamburinn í vesturhluta Víkurfjöru, við snið 1 og 1.5, aðeins gengið til baka á milli 2021 og 2022, en er nú byrjaður að ganga fram. Fjaran hér er búin að byggjast upp hratt á undanförnum árum, síðan fyrsti sandfangarinn kom, og er gamli fjörukamburinn kominn það langt inn í land að hann er orðinn stöðugur og sjór nær ekki lengur upp að honum í stormum. Nýr fjörukambur mun á endanum myndast nær sjávarmálinu, en eins og er er gróðurinn enn að færa sig nær sjónum. Mælingin í vesturhluta Víkurfjöru er því í raun mæling á gróðurlínu fjörunnar, en þessar mælingar ásamt mælingunum á sniðunum tveimur munu gefa góða innsýn inn í það hvernig nýr fjörukambur myndast. Það er því gróðurlínan sem hefur hopa aðeins og síðan vaxið, ekki kamburinn, en það er að öllum líkindum vegna hins mikla sandfoks sem var um veturinn fyrir mælinguna árið 2022. Síðan mælingin var gerð í febrúar 2022 þá hefur Landgræðslan hafið uppgræðslu á sandinum fyrir framan fjörukambinn og munu því mælingar nemenda kortleggja útbreiðslu melgresisins sem Landgræðslan sáði og þá í leiðinni sýnt hvort að uppgræðslan hafi virkað eða ekki. Á myndinni má sjá hvar sú girðing er staðsett, og verður forvitnilegt að sjá hvort að melgresið nái að breyða úr sér yfir allt svæðið innan girðingarinnar.
Aðstæðurnar á fjörukambinum milli sandfangarana eru aðeins öðruvísi, en þar er fjörukamburinn í raun gamalt rofabarð í fjörunni sem er nú að hluta hulinn gróðri. Mælingarnar sýna að það hefur átt sér stað landbrot austan við snið 4 og á milli sniða 3 og 4, en það er ekki mikið. Þá hefur einnig verið landbrot og rof við vesturhlutann, en hluti þess er vegna umferðar ferðamanna um fjöruna, sérstaklega við göngustíginn sem liggur frá bílastæðinu við Icewear. Þá má einnig sjá að töluvert landbrot hefur átt sér stað við fjörukambinn við snið 4 síðan loftmyndin var tekin, sem var árið 2020. Það er því ljóst að landbrot getur enn átt sér stað þar, og munu mælingar nemenda fylgjast með því í framtíðinni.