Í Stóru-Dímon koma saman mörk Austur-Landeyja, Fljótshlíðar og Vestur-Eyjafjalla. Stóra Dímon á sér systur sem er Litla Dímon. Nafnið er talið koma úr latínu og merkja tvífjöll, eða tveir eins. Þá er einnig sagt að orðið merki heysáta og vissulega minnir Dímon á heysátu, hér á bleikum ökrunum. Við fjallið fóru fram húskarlavíg Hallgerðar og Bergþóru í Njáls sögu. Þar segir frá vígi Kols, verkstjóra hjá Gunnari á Hlíðarenda, en hann vó Svart sem var húskarl Njáls á Bergþórshvoli. Hann var þar í skógarhöggi í Rauðuskriðum, eins og fjallið hét þá. Fjallið er 178 metra hátt og er það verðugt verkefni, bæði hjá börnum sem fullorðnum að ganga upp á Dímon.

Hvernig myndaðist Stóri-Dímon? Af Vísindavefnum:

Stóri-Dímon er móbergseyja sem hefur myndast við eldgos undir jökli eða í sjó. Eyjan stendur í mynni Markarfljótsdals upp af aurum Markarfljóts. Stóri-Dímon er rúst af móbergseyju sömu gerðar og til dæmis Pétursey, Dyrhólaey og Hjörleifshöfði. Eyjar þessar hafa ýmist myndast í sjó eða undir jökli, en Stóri-Dímon hefur rofist mjög af Markarfljóti sem og jökulhlaupum. Norðan í eynni er sérlega fagurt stuðlaberg.

Nafnið Dímon er „innflutt“ latína, sennilega frá Írlandi eða Suðureyjum, og merkir „tvífell“, Stóri- og Litli-Dímon (di = tveir, mons = fjall)

Sjá á korti

63.676224449, -19.943113311|Stóra-Dímon, Litla-Dímon|Jarðfræði og menning|/media/39193/Stori-Dimon-Litli-Dimonl.JPG?w=250&h=109&mode=crop|http://www.katlageopark.is/um-jardvanginn/jardvaettin/stora-dimon-litla-dimon/