Alviðruhamrar eru klettahamrar á söndunum fram af Álftaveri. Alviðruhamrar hafa líklega myndast eftir að hraun hefur runnið ofan af hálendinu á forsögulegum tíma, allt í sjó fram, en þar hefur sjórinn svo brotið framan af hrauninu. Norðvestur af Álftaveri var Dynskógahverfið til forna, en byggðin þar er talin hafa farið í eyði í Kötluhlaupinu um 900. Þar eru nafngreindir nokkrir bæir og einn af þeim hét Alviðra sem hamrarnir eru víst nefndir eftir. Talið er að Þorkell Alviðrukappi sem barðist við Hróar Tungugoða á Orrustuhól hafi kennt sig við þann bæ.