Þríhyrningur
Þríhyrningur er 678 metrar á hæð og útsýni mjög gott til allra átta þaðan. Fjallið dregur nafn sitt af þremur hornum og á milli þeirra er dalur sem heitir Flosadalur. Segir í Njáls sögu að þar hafi Flosi á Svínafelli og brennumenn falið sig eftir Njálsbrennuna. Í fjallinu framanverðu eru tvö hamragil, Katrínargil og Tómagil. Þríhyrningur er í um 18 km fjarlægð frá Hvolsvelli og hefur gönguleið á fjallið verið stikuð. Fljótshlíðarvegurinn (261) er ekinn að Tumastöðum en þar er keyrt upp þangað til komið er að Fiská. Hjá Fiská er svo beygt til hægri upp á grasbala og hefst gangan þaðan, upp á fjallið að suð-vestan Eðlilegt er að gefa sér tvo til þrjá tíma í fjallgönguna.
Þríhyrningur
Fjallið Þríhyrningur gnæfir yfir Fljótshlíðina og Landeyjar. Sættir fóru út um þúfur á Alþingi eftir víg Höskuldar hvítanesgoða og því ekkert til ráða nema hefndir. Flosi Þórðarson á Svínafelli, sem sá um málið fyrir hönd ekkjunnar og bróðurdóttur sinnar Hildigunnar Starkaðardóttur, stefndi fylgismönnum sínum þangað þegar tæpar átta vikur voru til vetrar. Brennumenn hittust við Þríhyrningshálsa þar sem þeir leyndust þar til þeir fóru að Bergþórshvoli. Eftir brunann á Bergþórshvoli héldu brennumenn upp á Þríhyrning í Flosalág, þar sem þeir dvöldu þar til þeir sáu að þeim stóð ekki lengur hætta af eftirleitarmönnum
(Njala.is - Njálusýning - Söguslóðir)
Þríhyrningur er ofurlítill fjallshryggur úr móbergi með stefnu SV-NA, sem er sprungustefna á Suðurlandi. Þannig hefur fjallið myndast á stuttri gossprungu við eldgos undir jökli, sennilega við lok síðasta jökulskeiðs (fyrir ~12.000 árum), en rannsóknir sýna að á ísöld var eldvirkni áköfust við lok hvers kuldaskeiðs þegar fargi jökulíssins var að létta af landinu.
Hins vegar gæti fjallið verið 100 eða 200.000 árum eldra, frá lokum fyrri kuldaskeiða – mér vitanlega hefur bergið ekki verið aldursgreint.
Sigurður Steinþórsson
prófessor emeritus