Víkurskóli
Markmiðið er að nýta stefnu jarðvangsins og sveitarfélaganna þriggja sem að honum standa; Mýrdalshrepp, Rangárþing eystra og Skaftárhrepp, samkvæmt alþjóðlegri vottun hans sem UNESCO jarðvangs. Fræðslustefna verði mótuð þar sem grunnskólar halda áfram framúrskarandi vinnu á þessu sviði þar sem kennarar, nemendur og jarðvangurinn vinna saman að því að bæta í fjölbreytileika námsins og veita aukna áherslu á nærumhverfið.
Markmið gagnvart nemendum er að þeir öðlist aukinn skilning á:
- jarðfræði svæðisins og læsi á umhverfið
- samhengi jarðsögu, lífríkis og landslags innan jarðvangsins
- tengslum náttúrunnar og búsetusögu
- sögulegum menningararfi jarðvangsins
- kröftum náttúrunnar út frá eðli svæðisins og náttúruvá sem íbúar búa við á svæðinu
- hvernig íbúar lifa af landinu svo sem með matvælaframleiðslu, handverki og ferðaþjónustu, og skilji hugtakið sjálfbæra notkun
- stöðu sinni gagnvart umhverfinu og vistkerfinu
- náttúruvernd og hlutverk sitt og ábyrgð gagnvart umhverfinu, framtíð svæðisins og heilbrigði náttúrunnar.
Rannsóknarverkefni í Víkurskóla – Katla jarðvangur
Katla jarðvangur og Víkurskóli, í samstarfi við Kötlusetur í Vík, hófu rannsóknarverkefni fyrir nemendur í Víkurskóla í gær, þann 12. janúar 2021. Verkefnið gengur út á að rannsaka strandlínu- og fjörubreytingar í Víkurfjöru á næstu árum.
Verkefnið felur í sér að nemendur í 5-10 bekk mæla upp 6 snið í Víkurfjöru, ásamt því að mæla kornastærðirnar á sandinum þar og taka ljósmyndir af formgerðunum í fjörunni. 1-4 bekkur mun síðan stunda sjálfstæðar rannsóknir á sandinum í Víkurfjöru, dýralífinu sem þar er að finna og rannsaka rusl sem skolast þar á land.
Stefnt er að því að nemendur mæli sniðin fjórum sinnum á ári, á vorin, seinni part sumars, haustin og um veturinn, til að fá sem besta mynd á það hvernig fjaran breytist á milli árstíma. Þá er fjörukamburinn einnig mældur til að athuga hvort það mikla landbrot sem hefur átt sér stað við Vík sé enn í gangi. Með mælingu sniðanna má sjá hvort að fjaran sé að byggjast upp eða ekki, ásamt því að reikna út u.þ.b. rúmmálið sem hefur annað hvort bæst við fjöruna eða verið fjarlægt þaðan. Athuganir á kornastærðinni í fjörunni og formgerðunum munu síðan gefa hugmyndir um orkustig strandarinnar og er kjörið tækifæri til að fræða nemendur um hið síbreytilega landslag fjara og hver áhrif loftlagsbreytinga hafa á strandsvæði. Markmiðin með rannsóknarverkefninu eru að nemendur kynnist því hvernig sé staðið að vísindalegum rannsóknum og fái að taka þátt í þeim, svo sem mælinga, söfnun upplýsinga og úrvinnslu gagna, en slík reynsla mun vonandi nýtast þeim vel í framtíðinni. Einnig að verkefnið muni auka skilning nemenda á strandumhverfum, sérstaklega sandfjörum, og hvað það er sem veldur breytingum á þeim, svo sem landrofi og vexti. Stefnt er að því að birta niðurstöðu mælinganna einu sinni á ári og er áætlað að þær verði til sýnis í sjóminjasafninu Hafnleysu við Kötlusetur.
Við viljum einnig nýta tækifærið og þakka honum Jóhanni Guðlaugssyni kærlega fyrir afnotin af GPS tækinu, en án þess væri ekki hægt að gera þessa rannsókn.

