Forskeytið geo- merkir á íslensku jarð- (komið af orðinu Gaia sem merkir Móðir jörð).

Geo- vísar í jarðmennt, það sem við kemur jörðinni, lífrænt og ólífrænt, svo sem samhangandi ferla, tengsl lífvera á jörðinni við staðbundna jarðfræði og hnattstöðu, notkun mannkynsins á gæðum jarðar, samfélög og hefðir manna, staðbundin og hnattræn.

Hlutverk Hnattrænna jarðvanga UNESCO er að stuðla að verndun mikilvægra jarðminja, náttúru og menningararfleifð og að íbúar jarðvanganna tileinki sér ábyrgð á ofantöldu. Þessu er meðal annars náð fram með fræðslu um staðbundna jarðsögu, jarðminjar, náttúrufar og menningarsögu svæðisins. Þá er hvatt til jákvæðrar byggðarþróunar með því að styðja við sjálfbæra nýtingu ofantalinna auðlinda.

Leiðarljós UNESCO jarðvanga:

  • Vernd og uppbygging.
  • Miðlun fræðslu og þekkingar.
  • Hvatning til sjálfbærni samfélags svo sem í gegnum fræðslu og vísindi og samvinnu geo-túrisma (jarðferðamennsku) og framleiðslu afurða með skýr tengsl við náttúru og menningararf jarðvangsins.
Sjá nánar 

 

Kveikjan að Geo-skólum Kötlu Geopark.

Katla UNESCO Global Geopark og grunnskólarnir innan hans, Hvolsskóli, Víkurskóli og Kirkjubæjarskóli, hafa tekið saman höndum til vinna að því markmiði að gera skólana að viðurkenndum Geo-skólum UNESCO jarðvangs sem uppfylla ákveðin markmið UNESCO jarðvanga. Sú vinna verður lifandi og í stöðugri mótun.

Geo-skólar Kötlu Geopark byggja á áralangri þekkingu og reynslu grunnskólanna sjálfra í kennsluaðferðum og verkefnum er tengjast svæðinu og að styrkja frekari tengsl þeirra við jarðvanginn í framtíðinni og stefnu UNESCO jarðvanga.

Hugmyndin á bak við Geo-skóla er byggð á þekkingu og reynslu annarra evrópskra jarðvanga um nálgun og stefnu Geo-skóla. Sérstaklega hefur verið litið til Geo-skóla í Rokua UNESCO Global Geopark í Finnlandi og Arouca UNESCO Global Geopark í Portúgal auk þátttöku í Erasmus+ samvinnuverkefni sem snéri að útikennslu í jarðmennt, sjá hér (þar má nálgast mismunandi dæmi af útikennsluverkefnum í jarðmennt).

 IMG 8055

Markmið Geo-skóla

Yfirmarkmið með stofnun Geo-skóla er að veita grunnskólum svæðisins sérstöðu í sinni vinnu og viðurkenningu til að auka aðdráttarafl svæðisins til búsetu og að gera jarðvanginn að góðum kosti fyrir fjölskyldufólk. Þar útskrifa skólarnir einstaklinga sem hafa haldgóða þekkingu á landsvæði sínu og ýmsum störfum og vísindum sem tengjast svæðinu og að þeir geti hugsað sér að vinna á þeim vettvangi innan jarðvangsins að loknu frekara námi. Með þessum hætti er komið til móts við að uppfylla óskir heimamanna um samfélagsáherslur og framtíðarsýn  auk þess að framfylgja aðalnámsskrá með skýrari tengsl við nærsvæði.

Markmiðið er að nýta stefnu sveitarfélaganna Mýrdalshrepps, Rangárþings eystra og Skaftárhrepps sem standa að Kötlu jarðvangi og stöðu hans og kröfur samkvæmt alþjóðlegri vottun hans sem UNESCO jarðvangs. Fræðslustefna verði mótuð þar sem grunnskólar halda áfram framúrskarandi vinnu á þessu sviði þar sem kennarar tileinka sér og vinna með einkenni, sögu og jarðfræði nærumhverfisins til að efla umhverfisvitund og umhverfislæsi nemenda undir merkjum Geo-skóla Kötlu UNESCO Global Geopark.

Markmið gagnvart nemendum er að þeir öðlist aukinn skilning á:

  • jarðfræði svæðisins og læsi á umhverfið
  • samhengi jarðsögu, lífríkis og landslags innan jarðvangsins
  • tengslum náttúrunnar og búsetusögu
  • sögulegum menningararfi jarðvangsins
  • kröftum náttúrunnar út frá eðli svæðisins og náttúruvá sem íbúar búa við á svæðinu
  • hvernig íbúar lifa af landinu svo sem með matvælaframleiðslu, handverki og ferðaþjónustu, og skilji hugtakið sjálfbæra notkun
  • stöðu sinni gagnvart umhverfinu og vistkerfinu
  • náttúruvernd og hlutverk sitt og ábyrgð gagnvart umhverfinu, framtíð svæðisins og heilbrigði náttúrunnar.

 

Þegar fram líða stundir væri æskilegt að nýta netverk evrópskra jarðvanga (EGN) til samvinnu eða til að kynna fyrir nemendum líf, landslags- og lífríkiseinkenni annarra hnattrænna jarðvanga UNESCO. Þannig öðlast nemendur sem stunda nám í Geo-skóla skilning og hollustu gagnvart umhverfinu, menningararfi og náttúru í sínu nærumhverfi sem verður hluti af sterkri sjálfsmynd þeirra. Einnig að nemendur fái góðan samanburð á milli landa og öðlast innsýn og skilning á hinu stóra hnattræna samhengi.

4577354951 D1261400a6 O

Hlutverk Kötlu Jarðvangs í að styðja við umhverfisfræðslu í skólum, um náttúruvísindi og menningararf jarðvangsins:

Með stofnun Geo-skóla kemur Katla Jarðvangur að því að móta heildræna stefnu með grunnskólunum til þess að tengja saman grunnskóla svæðisins og starfsemi jarðvangsins á formlegan hátt og styðja við fræðslustarf þeirra á sviði málefna jarðvangsins.

Eitt af meginmarkmiðum og hlutverkum jarðvangsins með viðurkenndum Geo-skóla er að hvetja til aukins vægis staðbundinnar fræðslu og þekkingar yngstu íbúa jarðvangsins á jarðsögu, menningu og umhverfismálum.

Jarðvangurinn mun styðja við starf grunnskólanna með auknu náms- og kennsluefni er tengist jarðvanginum beint og vinna að því að stuðla að aukinni færni í útikennsluaðferðum.

Ef vel tekst til er mögulegt að samvinna innan Geo-skóla Kötlu vindi upp á sig í samvinnu við aðra Hnattræna jarðvanga UNESCO og annað skólastarf innanlands. Katla Jarðvangur verður Geo-skólum sínum innan handar með slíkt og heldur áfram að vinna að fræðsluefni tengt alþjóðlega mikilvægum minjum jarðvangsins, náttúrufari og menningararfleifð og einnig að miðla til almennings og sérhæfðari hópa.