Alþjóðlegur dagur fjalla
Í dag er alþjóðlegur dagur fjalla og því vildum við hér í Kötlu jarðvangi deila með ykkur smá upplýsingum um eitt af okkar uppáhalds fjöllum, sem er Þórólfsfell austan við Fljótshlíð og við sunnanverð Tindfjöll. Þórólfsfell er móbergsstapi sem er 8 ferkílómetrar að stærð, um 2,2 km3 að rúmmáli, og nær hæst upp í 570 metra hæð yfir sjávarmáli en fjallið sjálft er um 450 metra hátt. Stapinn er sá stærsti nálægt Tindfjallajökli, en Tindfjallajökull er eldstöðvakerfið sem er næst stapanum.
Þórólfsfell myndaðist líklega í eldgosi við lok síðasta jökulskeiðs, fyrir meira en 11.500 árum. Ekki hefur rofið mikið af stapanum, og er aldursgreindur út frá því þar sem ef hann væri eldri þá væri meira rof búið að eiga sér stað. Það eru hins vegar jökulrákir efst á stapanum og því hefur hann myndast áður en kuldaskeiðinu lauk og hefur eitt sinn verið hulinn jöklum. Markarfljót hefur einnig unnið á fjallinu, þá aðalega af suðurhliðinni. Þórólfsfell kemur fyrir í Njálu, en Njáll átti þar annað bú. Það bæjarstæði hefur aldrei fundist, en líklegt er að rofið af völdum Markarfljóts hafi eytt því.
Móbergsstapar myndast í gosi undir jökli eða í sjó og eru þeir algengir innan jarðvangsins. Bólstraberg myndast yfirleitt neðst í þeim, þegar enn er djúpt vatn (bráðvatnið frá jöklinum) eða sjór yfir gosstöðvunum. Þegar líður á gosið fer dýptin á vatninu að minnka, og tekur þá við sprengigos sem myndar móbergslög í stapanum. Ef gosið stendur yfir nægjanleg lengi svo að vatn eða sjór komist ekki lengur að gosstöðvunum, þá byrja hraun að renna og þekja yfirborð stapans. Gott dæmi um slík gos eru t.d. Surtseyjargosið 1963 og gott dæmi um „venjulegan“ stapa er Pétursey í Mýrdal. Þórólfsfell hefur hins vegar aðeins öðruvísi myndunarsögu en er þó talinn sem stapi. Gosið sem myndaði Þórólfsfell var gos undir jökli, en talið er að hallinn á berginu undir eldstöðvunum, sem er um 12°, hafi leitt til þess að bráðvatnið úr jöklinum hafi ekki byggst upp við eldstöðvarnar heldur flætt í burtu jafnóðum, og þar af leiðandi varð ekki sprengigos heldur hraungos. Þórólfsfell er því að mestu leyti byggt upp af hraunlögum, ekki móbergi, en er með sama útlit og stapi. Þórólfsfell er ekki einsdæmi, þar sem Bláfell er stapi sem hefur myndast á svipaðan máta og er ekki langt frá Þórólfsfelli. Þá er ekki ólíklegt að fleiri svona stapar myndu finnast ef leitað yrði að þeim sérstaklega.
Hraunið í Þórólfsfelli hefur verið efnagreint til að finna út úr hvaða eldstöðvakerfi kvikan kom, og er mjög svipað efnalega séð og það hraun sem komið hefur úr Tindfjallajökli. Þó er ekki hægt að fullyrða hvort stapinn sé hluti af Tindfjallajökulskerfinu eða hvort það sé sjálfstætt eldfjall sem myndaðist óháð eldfjallakerfunum í kring, en vonandi verður hægt að skera úr um það í framtíðinni.
Gönguleið liggur upp á Þórólfsfell, og má sjá kort hér (https://www.katlageopark.is/um-jardvanginn/kort/gonguleidakort/), og er útsýnið af fellinu stórbrotið enda er Tindfjallajökull til norðurs, Þórsmörk og Mýrdalsjökull til austurs, Eyjafjallajökull til suðurs og Markarfljót og Fljótshlíðin til vesturs. Gangan upp á fellið tekur um 4-5 klst. fram og til baka og er vegalengdin um 6,5 km. Þá er þess virði að ganga að Mögugili og virða fyrir sér Mögugilshelli, en hellirinn er ein af sérstæðari jarðfræðimyndunum landsins og er synd að hann hafi ekki verið rannsakaður frekar. Þó er til góð grein um hellinn fyrir þá sem vilja lesa frekar og má nálgast hér (https://timarit.is/page/4262495#page/n0/mode/2up)