05. desember 2022

Alþjóðadagur jarðvegs

Í tilefni af Alþjóðadegi jarðvegs (World Soil Day) í dag, 5. desember, má deila einstöku jarðlagasniði frá Kötlu jarðvangi sem fyrirtækið Neðanjarðar sótti og vann 2018.
Í sniðinu er að finna öskulög úr flestum eldstöðvakerfum í Kötlu jarðvangi og líka í Vatnajökulsþjóðgarði og að auki eru mörg áberandi „leiðarvísa-öskulög“ úr Heklu. Stærstu öskulögin eru frá Kötlu en einnig sjást öskulög úr Grímsvötnum, Öræfajökli og Bárðarbungu svo eitthvað sé nefnt. Nær öskulagasniðið frá deginum í dag og aftur um 7000 ár. Dr. Bergrún Anna Óladóttir gjóskulagasérfræðingur skoðaði sniðið og hafði hún samband við þjóðgarðinn og jarðvanginn í framhaldi af því. Bergrún kom með þá hugmynd að varðveita hluta úr sniðinu þar sem um einstaklega gott öskulagasýnishorn er að ræða. Í sniðinu er saga öskufalla í og við nágrenni jarðvangsins og þjóðgarðsins og tenging við hina miklu náttúruvá á svæðinu. Sniðið gefur gott innlit í sögu svæðisins og tengir saman sambúð manns og náttúru. Staðsetning þessa jarðvegtökusniðs er við Ása-Eldvatn í Skaftártungu. Þar rufu verktakar jarðveg fyrir vegtenginu við fyrirhugaða brú og kom þá í ljós einstaklega fallegt jarðvegssnið. Gerð sýnisins var styrkt af Vinum Vatnajökuls og er nú til sýnis í gestastofunni Skaftárstofu en upphaflega var það í Upplýsingamiðstöð jarðvangsins við Eyjafjallajökul (þaðan sem myndirnar koma). Jarðvegur svæðisins er mikið mótaður af eldvirkni svæðisins og má með sanni segja að landbúnaður á svæðinu verði fyrir áhrifum af eldfjöllum þess, einkum ösku. Áhrif ösku á kornrækt virðist t.d. hafa góð langtímaáhrif en tímabundin neikvæð áhrif. Það má því sannarlega ,,smakka eldfjöllin” úr ræktuðum afurðum úr jarðvegi Kötlu jarðvangs!

Twitter Facebook
Til baka