Sögur og myndskeið um matarhefðir innan Kötlu jarðvangs
Jarðvangurinn hefur verið að safna sögum tengdum matvæla- og matargerð undanfarna mánuði. Sögusöfnunin hefur verið í tengslum við GEOfoodEDU verkefnið sem jarðvangurinn tekur þátt í ásamt Magma jarðvangi í Noregi, Jarðvísindastofnun Færeyja og Innovation South Greenland. Tekin hafa verið nokkur viðtöl og unnar úr þeim sögur, og hafa viðfangsefnin verið margvísleg, t.d. hvernig fýlatekju var og er háttað og hvernig fýlinn er matreiddur, sultugerð, ræktun á repju og fiskeldi innan um hraun. Sögurnar hafa nú, ásamt sögum frá hinum svæðunum í verkefninu, verið birtar í bæklingi á netinu. Bæklingurinn er hin glæsilegasti og er myndskreyttur myndum frá norsku listakonunni Siv-Grethe Bohn Pettersen. Bæklinginn má nálgast hér, og eru fimm sögur frá Kötlu jarðvangi í honum. Þá hefur jarðvangurinn einnig gert fjögur myndskeið um fjórar af sögunum, en þau má sjá hér, og myndskeið frá hinum svæðunum má síðan sjá hér.
Menningararfurinn í matreiðslu og matvælum er mikilvægur og ef þú vilt deila sögum af matvæla- og matargerð með jarðvanginum og varðveita þann menningararf, þá endilega hafðu samband við Jóhannes í gegnum johannes@katlageopark.is eða í síma 866-7863.