EGN fundur og ráðstefna – Sesia Val Grande Geopark, 26-30 september 2022
Í lok september sóttu tveir fulltrúar Kötlu jarðvangs 46. fund tengslanet evrópskra jarðvanga (European Geopark Network, EGN) og 16. ráðstefnu evrópskra jarðvanga. Viðburðirnir voru haldnir í Sesia Val Grande jarðvangi í bænum Verbanía við Il Maggiore stöðuvatnið á Norður Ítalíu. Á fundinum voru ýmis mál rædd, m.a. að skerpa á stefnu og gildum EGN tengslanetsins. Að auki voru loftslagsmálin til umræðu, en frá og með komandi ári mun annar af tveimur fundum vera haldinn rafrænt í staðinn fyrir staðarfund. Á ráðstefnunni var fjöldi áhugaverðra fyrirlestra og tvö erindi voru flutt frá Kötlu jarðvangi. Berglind Sigmundsdóttir framkvæmdastjóri Kötlu jarðvangs flutti erindi um samstarfsverkefni tengt mat og hefðum í Kötlu jarðvangi og viðtölum sem jarðvangurinn hefur verið að taka við íbúa tengt því, og Sigurður Sigursveinsson flutti erindi um annað samstarfsverkefni þ.e. nám sem er í þróun um jarðferðamennsku í háskólanum í Krakow í Póllandi en Katla jarðvangur og Holy Cross jarðvangur eru höfð sem fyrirmyndir um svæði sem hafa þróað góða innviði til að byggja upp jarðferðamennsku. Fulltrúar frá Reykjanes jarðvangi voru einnig þátttakendur á fundinum og ráðstefnunni og fluttu erindi m.a. um verkefni sem þau eru þátttakendur í. Þura, markaðsstjóri Visit Reykjanes, flutti erindi um Upcycling samstarfsverkefni sem fjallar um hringrásarhagkerfið og endurvinnslu og Arnbjörn í stjórn Reykjanes jarðvangs flutti erindi um GeoCamp Iceland og tók dæmi frá nemendaheimsóknum í Kötlu jarðvang þar sem aðstæður þykja einstaklega góðar til að kenna um landmótunaröflin. Næsti fundur evrópska netverksins verður haldinn í Hateg jarðvangi í Rúmeníu í lok mars 2023 en næsta ráðstefna verður á vegum Global Geopark Network (Hnattræna tenglsanet jarðvanganna) í M’Goun jarðvangi í Marokkó í lok september 2023. Ráðstefnur á vegum GGN og EGN eru opnar öllum og er þetta frábær leið til að læra um jarðvanga og einnig til að kynna sig og starfsemi sína fyrir öðrum sem sækja ráðstefnurnar, hvort sem þú ert að vinna fyrir sveitarfélag, fyrirtæki eða ert námsmaður! Hafið þið áhuga á að sækja ráðstefnu hvetjum við ykkur til að vera í sambandi við okkur varðandi frekari upplýsingar. Hægt er að sjá myndir frá ráðstefnunni hér.