20. september 2022

Samstarfsverkefni um jarðferðamennsku – AGH og Holy Cross jarðvangur

Katla jarðvangur er samstarfsaðili Háskólafélag Suðurlands í verkefni styrktu af Þróunarsjóði EFTA (EEA Grants) en verkefnið gengur út á að þróuð verði námsleið á meistarastigi um Jarðferðamennsku (e. Geotourism). Það er AGH Tækniháskólinn í Krakow Póllandi sem leiðir verkefnið en formlegur samstarfsaðili á Íslandi er Háskólafélag Suðurlands. Katla jarðvangur og Holy Cross jarðvangur eru taldar góðar fyrirmyndir um svæði sem hafa þróað innviði til að styðja við uppbyggingu jarðferðamennsku.

Í lok maí var fyrsti upphafsfundur verkefnisins haldinn hjá AGH í Krakow Póllandi og sóttu fundinn fulltrúar frá báðum jarðvöngum, Háskólafélagi Suðurlands, og Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Í september var svo umfangsmikil heimsókn pólskra verkefnaaðila til Íslands, sem fól í sér 8 daga þjálfunar- og vettvangsferð þar sem fjöldi jarðvætta og samstarfsaðila voru heimsótt. Til Kötlu jarðvangs kom vaskur hópur sjö aðila til að læra af Kötlu jarðvangi og Háskólafélagi Suðurlands um kennsluaðferðir í jarðmennt, jarðferðamennsku og ferðamálum á Suðurlandi. Tvö málþing voru haldin og tóku nemendur úr ferðamálafræði HÍ þátt í öðru en fulltrúar fyrirtækja og samstarfsaðila Kötlu jarðvangs í hinu. Hér má sjá myndir úr heimsóknum tveimur.

Twitter Facebook
Til baka