01. júlí 2022

Lokaráðstefna Ruritage í París, 8.-10. júní 2022

Katla jarðvangur sótti lokaráðstefnu verkefnisins “Ruritage – Menningararfleifð sem tól til byggðaþróunar” en hún var haldin í París í júní s.l. og sóttu hana á annað hundrað manns. Á ráðstefnuna og lokafund verkefnisins sóttu tveir fulltrúar Kötlu jarðvangs, þ.e. Berglind framkvæmdastjóri og Jóhannes Marteinn verkefnastjóri, en með þeim í för fylgdi Sigurður Sigursveinson sem fulltrúi Háskólafélags Suðurlands sem var samstarfsaðili jarðvangsins í verkefninu.

Fulltrúar verkefnisins kynntu útkomu og ávinning verkefnisins og að auki voru haldnar vinnustofur um byggðaþróun og tækifæri til eflingar. Jóhannes Marteinn hefur haft umsjón með Ruritage verkefninu undanfarin tvö ár, og þurfti að aðlaga verkefnið talsvert vegna heimsfaraldurs þar sem um þekkingarmiðlun var að ræða sem átti mikið til að fara fram á vinnustofum og fundum erlendis. En í stað þess var skilgreindur nýr hlutur í verkefninu, ,,framfaraáætlun fyrir jarðvanginn og samfélag hans en þar voru valin þrjú lykilverkefni af sjálfboðaliðum frá hagsmunaaðilum Kötlu jarðvangs. Markmið með þeim var að leiða fram jákvæða byggðaþróun sem einblínir á náttúru- og menningarminjar. Vinnustofur voru haldnar um þessi verkefni en þau fjölluðu um að 1) vekja athygli á náttúruvá innan jarðvangsins og þeim forvörnum sem búið er að skilgreina, 2) að kortleggja fornar ferðaleiðir með samtölum við íbúa, og 3) að vinna með helstu hagsmunaaðilum jarðvangsins að því styrkja samstöðu og samvinnu innan Kötlu jarðvangs og bæta hann sem áfangastað. Hér er um að ræða góðan grunn sem jarðvangurinn mun koma til með að byggja á til komandi ára. Ljósmyndir frá lokaráðstefnunni má finna hér.

Twitter Facebook
Til baka