Katla jarðvangur hlaut þriðja hæsta styrkinn frá Framkvæmdasjóði Ferðamannastaða í ár!
Katla jarðvangur - Bætt öryggi með nýjum útsýnisstíg og myndatökustað við Eyjafjallajökul að upphæð kr. 35.837.307,-
Styrkur til að klára að hanna og deiliskipuleggja og síðan framkvæma stíg ásamt útsýnishól þar sem umfjöllun Eyjafallagossins verður gerð góð skil. Verkefnið er sérstaklega brýnt vegna öryggissjónarmiða en hefur einnig breiða skírskotun í aðrar megináherslur sjóðsins.
Þakgil: Bjarni Jón Finnsson umsjónaraðili í Þakgili –1.764.846,-
Úrbætur í Þakgili vegna náttúruverndar og öryggis á gönguleiðum. Styrkur til útbúa stikur fyrir tvær gönguleiðir, merkja þær og mála. Ganga þarf gönguleiðirnar, setja stikur í stað þeirra sem ónýtar eru svo og bæta við stikum þar sem þarf t.d. á blinda punkta og víðar. Um leið þarf að útbúa skilti og leiðbeiningar um hvert skal ganga til að komast upp slóðann. Verkefnið er á áfangastaðaáætlun svæðisins, stuðlar að náttúruvernd, bætir öryggi ferðamanna og speglar því vel meginmarkmið Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða.
Mýrdalshreppur - Útsýnispallur í hlíðum Reynisfjalls. Kr. 17.100.000,-
Styrkur til búa til nýjar gönguleiðir, aðbúnað og útsýnispall í fjallshlíðinni þar sem fyrir er straumur fólks við óöruggar aðstæður. Þannig verður umferð um svæðið stýrt á skýran hátt. Í bratta niður frá núverandi vegi á fjallinu verða bæði lagðar tröppur sem og rampur niður að útsýnispalli til að skapa aðgengi fyrir alla. Metnaðarfull uppbygging varanlegra innviða og frágangur á vinsælum ferðamannastað. Verkefnið bætir aðgengi fyrir alla, stuðlar að náttúruvernd og er á áfangastaðaáætlun svæðisins.
Rangárþing eystra - Gluggafoss - stígar austan megin við fossinn. Kr. 1.243.671,
Styrkur til að útbúa varanlega stíga austan megin við Gluggafoss þar sem svæðið er mjög blautt, hentistígar myndast og náttúran liggur undir skemmdum. Mikil slysahætta verður þegar blautt er í veðri og gestir á svæðinu ganga upp með fossinum og fara fram á ótrausta brún en efri hluti fossins rennur um jarðlög úr móbergi sem molna auðveldlega. Verkefnið snýr að gerð göngustíga og verndun viðkvæmrar náttúru. Það er á áfangastaðaáætlun Suðurlands og rímar vel við meginmarkmið sjóðsins.
Rangárþing eystra – Landeyjasandur – bætt aðgengi og öryggi. Kr. 4.512.936
Styrkur til að bæta öryggi ferðamanna og íbúa sem leggja leið sína í Landeyjasand stutt frá Landeyjahöfn. Grindur/mottur verða settar upp við bílastæðið þar sem upplýsinga- og öryggisskilti sem verða sett upp. Á upplýsingaskilti verður sýnd vegalengd að skipsflakinu sem er að finna í sandinum 1,22 km frá bílastæðinu og þá vá sem ber að varast á sandinum. Skilti sem bendir á hættur þarf líka að vera við inngang í sandfjöruna frá þjónustumiðstöð í Landeyjahöfn. Háspennustrengir liggja í sandinum og nauðsynlegt er að setja upp viðvörunarskilti um þetta á íslensku og ensku. Leiðin að skipsflakinu verður svo stikuð með kaðli festum á stálstaura. Verkefnið er prýðilegt innviðaverkefni enda snýr það að bættu öryggi á varasömum slóðum auk annarra mikilvægra þátta. Verkefnið er á áfangastaðaáætlun svæðisins.
Rangárþing eystra - Efra-Hvolshellar: Bætt aðkoma, stíga- og skiltagerð. Kr. 1.655.186,
styrkur til að afmarka svæðið betur sem og setja upp öryggis- og upplýsingaskilti í samvinnu við Kötlu jarðvang. Laga þarf stíginn frá bílastæðinu og að tröppunum niður að hellunum sem og setja nýtt hlið á leiðina sem að þjónustar bæði þeim sem heimsækja svæðið sem og landeigendum sem nýta hluta leiðarinnar sem beitarland. Tröppurnar eru orðnar eyddar og öryggi er ábótavant þar sem að þær verða verulega sleipar og eru mjög brattar. Niðri við hellana þarf að setja upp jarðvangsskilti sem að fer yfir öryggismál inni í hellunum. Verkefnið lýtur að nokkrum mikilvægum áherslum sjóðsins. Það bætir grunnþjónustu og öryggi, stuðlar að náttúruvernd og er á áfangastaðaáætlun svæðisins.
Sjá nánar hér (af heimasíðu Stjórnarráðsins)