Katla jarðvangur tók þátt í sumarhátíðinni í Leikskálum í Vík í gær
Katla jarðvangur tók þátt í sumarhátíðinni í Leikskálum í Vík í gær. Jarðvangurinn var þar með bæklinga og upplýsingar um sjálfan sig og kynnti til leiks ýmis verkefni sem jarðvangurinn er að vinna að. Einnig var jarðvangurinn með fjöldann allan af skemmtilegum steinasýnum sem gestir og gangandi gátu kíkt á og skoðað. Steindir (kristalar) í berginu voru skoðuð nánar með lúpu (stækkunargleri) og bergið aðgreint með aðstoð bóka um íslenskt berg. Þá var GEO-VR, sýndarveruleikatæki jarðvangsins einnig á staðnum þar sem hægt var að skoða sig um í jarðvanginum, horfa á vídeó og læra um jarðsögu. Óhætt er að segja að sýndarveruleikinn hafi heldur betur slegið í gegn, sérstaklega hjá ungu kynslóðinni, en biðröð var í tækið allan tímann. Nú þegar Covid-19 faraldurinn er vonandi að fara að ljúka, þá munu möguleikarnir til að nýta sýndarveruleikann aukast til muna og hlakkar jarðvangurinn til að nýta það víðar innan jarðvangsins. Hér fylgja nokkrar ljósmyndir frá gærdeginum 😊