Heimsókn í Kötlu jarðvang
Katla Jarðvangur fékk góða heimsókn í gær þegar hópur úr verkefninu FÓLEGO kíkti í heimsókn á Kötlusetur í Vík. Meðal gesta voru m.a. Dr. Ásthildur Björg Jónsdóttir, Steinunn Sigurðardóttir, Dr. Kieran Baxter og Alice Watterson frá Skotlandi og tveir fulltrúar frá Naturtejo jarðvanginum í Portúgal. Því miður höfðu nokkrir úr hópnum veikst af Covid og komust því ekki með. Katla jarðvangur er ekki þátttakandi í þessu verkefni, en bauð hópnum í heimsókn til að kynna þeim fyrir Kötlu jarðvangi þar sem markmið verkefnisins eru nærtæk jarðvanginum. FÓLEGO Verkefnið nær til Portúgals, Noregs og Íslands og eru markmið verkefnisins m.a. þau að sameina list, vísindi og umhverfið til að vekja athygli á loftlagsbreytingum, en hér má lesa frekar um verkefnið.
Á meðan heimsókninni í Kötlusetur stóð þá flutti Berglind Sigmundsdóttir framkvæmdastjóri Kötlu jarðvangs stutta kynningu um jarðvanginn og Harpa Elín Haraldsdóttir forstöðukona Kötluseturs kynnti Kötlusetur og listakonuna Sigrúnu Jónsdóttur.
Það vildi svo skemmtilega til að heimsóknin átti sér stað á bolludeginum og því var tekið upp á því að kynna gestunum fyrir alíslenskum rjómabollum og ástarpungum og var erfitt að sjá hvort gestirnir væru ánægðari með, jarðvanginn eða bollurnar.
Jarðvangurinn vill hér með þakka kærlega fyrir heimsóknina og óskar þeim góðs gengis í verkefninu í framtíðinni.