11. desember 2021

Alþjóðlegur dagur fjalla

Í dag er alþjóðlegur dagur fjalla og því vildum við hér í Kötlu jarðvangi deila með ykkur smá upplýsingum um fjöll og þá aðallega um eitt af okkar uppáhalds fjöllum, Höttu í Mýrdalshreppi. Á alþjóðadegi fjalla í fyrra fjölluðum við um Lómagnúp og árið á undan fjölluðum við um Steinafjall.

Hatta er stórglæsilegt móbergsfjall, eða tindur kannski frekar, og er í vesturbrún Víkurheiðar. Hatta er um 504-512 m að hæð og því hæsta fjallið við Vík og er útsýnið af því stórfenglegt. Það vill þó oft falla í skuggann af Reynisfjalli þegar kemur að umfjöllun um fjöll á svæðinu og vill jarðvangurinn því aðeins bæta úr því hér.

Hatta er, eins og flest ef ekki öll fjöll í Mýrdalshreppi, hluti af íslensku móbergsmynduninni og mynduð í eldstöðvakerfi Kötlu. Móbergsmyndunin eru þau jarðlög sem mynduðust við gos undir jökli eða í sjó á síðari hluta ísaldar (fyrir 0,78-0,01 milljón árum) og er mjög áberandi innan Kötlu jarðvangs. Móbergsmyndunin er um 11.200 km2 að stærð og finnst á öllum núverandi virku gosbeltum landsins. Þær gosmyndanir sem tilheyra Móbergsmynduninni eru, eins og nafnið gefur til kynna, að stórum hluta úr móbergi, en innan myndunarinnar finnst einnig bólstraberg, innskot og hraunþekjur. Aldur Höttu er ekki þekktur, en fjallið er væntanlega tiltölulega ungt á jarðfræðiskala, líklega myndað á síðasta eða næstsíðasta hlýskeiði ísaldar, eða fyrir um 120 þúsund eða 200 þúsund árum síðan. Það er mikið miður að Hatta hafi ekki verið rannsökuð frekar, og á það reyndar við margar þær móbergsmyndanir sem finna má innan Kötlu jarðvangs. Efst í Höttu sjálfri má sjá mjög fallega lagskipt móberg og þá er þar einnig töluvert af brotabergi (þursabergi) að finna. Neðri hluti fjallsins er hins vegar að mestu leyti hulinn urðarbrekkum, skriðum og grónu landi. Flest bendir til þess að jöklar hafi gengið yfir fjallið og einnig er mögulegt að Hatta hafi um tíma verið lítið jökulsker sem hafi staðið upp úr hinum hörfandi ísaldarjökli. Það er hins vegar alveg öruggt að vesturhlíðar fjallsins séu jökulsorfnar og mjög líklegt að tindurinn sjálfur hafi fengið þetta oddhvassa útlit sitt vegna handverks jöklahreyfinga, þá þegar jökullinn rann niður Víkina í átt til sjávars. Norður- og austurhlíðar Höttu eru hins vegar ekki eins brattar og vesturhliðin og sameinast Víkurheiðinni. Hatta hefur ekki eingöngu verið mótuð af jöklum, því móbergið er nokkuð vindsorfið ofarlega í henni og þá er einnig mögulegt að sjávaröldur hafi náð til hennar við lok síðasta kuldaskeiðs fyrir um 11 þúsund árum þegar afstæð sjávarstaða varð mun hærri en hún er í dag. En hvað sem roföflunum líður þá er Hatta einn af fallegri tindum, sérstaklega þegar það er búið að snjóa aðeins á hana, en þá sést lagskiptingin í móberginu enn betur og er mikilfengleg sjón að sjá.  

Mjög gaman er að ganga á Höttu og ættu sú ganga að vera fær öllu vönu fjallgöngufólki og þeim sem ekki eru of lofthræddir, þar sem það þarf að fara upp nokkuð mikinn bratta. Stikuð gönguleið, sem byrjar við Víkurkirkju, er upp á toppinn og fer einnig lengra í austur í átt að Víkurhömrum. Þó mælum við ekki með því að ganga á Höttu stuttu eftir miklar rigningar eða í leysingum, þar sem töluverður jarðvegur er á gönguleiðinni og hann verður gegnsósa frekar auðveldlega. Þá er vert að minnast að fjölmörg fögur fjöll eru innan Kötlu jarðvangs og eru gönguleiðir á mörg þeirra. Hægt er að nálgast gönguleiðir á Höttu, og önnur fjöll, bæði hér http://www.katlageopark.is/um-jardvanginn/kort/gonguleidakort/ og á https://wapp.is/forsida/.

 

heimildir:

EDS og SSt. „Hvernig og hvenær myndaðist Hjörleifshöfði?“ Vísindavefurinn, 6. mars 2008. Sótt 8. desember 2021. http://visindavefur.is/svar.php?id=7186.

Einar H. Einarsson, 1970. Um hugsanleg íslaus svæði í Mýrdal. Náttúrufræðingurinn, 39(3-4);251-257

Einar H. Einarsson, 1984. Sjávarstaða við Mið-Suðurland, Náttúrufræðingurinn, 53(1-2);61-68

Sveinn P. Jakobsson og Magnús Tumi Guðmundsson, 2012. Móbergsmyndunin og gos undir jöklum. Náttúrufræðingurinn 82(1-4);113-125 https://notendur.hi.is/mtg/pdf/2012_NF82_SPJ_MTG_Moberg.pdf

 

Twitter Facebook
Til baka