01. nóvember 2021

Úttekt á Kötlu jarðvangi 18.-22. október 2021

Allir jarðvangar sem hlotið hafa viðurkenningu á vegum hnattræna UNESCO jarðvanga þurfa að standast úttektir á 4 ára fresti til að fá að vera áfram aðilar að samtökum UNESCO Global Geoparks, en í þeim  eru núna 169 jarðvangar í 44 ríkjum . Um nokkurs konar gæðaúttekt er að ræða, enda fylgja ströng skilyrði því að vera hluti af alþjóðlega vottuðum áfangastað sem UNESCO Global Geoparks eru. Svæði sem tilheyra UNESCO vinna samkvæmt þeirri meginstefnu að stuðla að friði og öryggi í heiminum með því að efla alþjóðlega samvinnu á sviði menntunar, vísinda- og menningarmála, og eru öll UNESCO svæði undir verndarvæng Sameinuðu þjóðanna.  Í dag eru fimm svæði á Íslandi á skrá UNESCO; þrjú á heimsminjaskrá (Vatnajökulsþjóðgarður, Þingvellir og Surtsey), og tveir jarðvangar þ.e. Katla og Reykjanes.

Úttektaraðilarnrir eru tveir  hverju sinni,  og koma frá öðrum jarðvöngum, að þessu sinni  tveir fulltrúar frá Evrópu, þ.e. Nick Powe frá English Riviera Geopark og Julia Franzen frá Vulkaneifel Geopark. Nick og Julia fengu greinargóðu kynningu á því flotta og fjölbreytta starfi sem er í gangi í jarðvanginum. Farið var með þau um víðan völl dagana 18.-22, október, og reyndist hver mótttakan annarri flottari. Öll sveitarfélögin þrjú kynntu sína aðkomu að jarðvanginum og framtíðarsýn, jarðvangsskólarnir kynntu sín verkefni, og söfn og setur buðu heim og héldu kynningu um sína starfsemi. Vatnajökulsþjóðgarður og Minjastofnun fóru með hópinn í vettvangsferðir, og fjöldi samstarfsfyrirtækja buðu heim, að sjálfsögðu með áherslu á jarðvangsafurðir. Einnig tóku fleiri heimamenn vel á móti hópnum og leiðsögðu um mikilvæg jarðvætti.

Eftir ógleymanlega viku í jarðvanginum bíður jarðvangurinn átekta um hvort hann haldi viðurkenningu sinni  sem hnattrænn UNESCO jarðvangur. Nefnd á vegum UNESCO  mun funda í desember og taka afstöðu til tillagna úttektaraðila viðkomandi jarðvanga. Jarðvangar geta fengið  grænt spjald, gult spjald eða rautt spjald. Fái hann grænt spjald heldur hann vottun sinni næstu fjögur árin ásamt tillögum um það sem betur má fara, og reglubundin úttekt er aftur að fjórum árum liðnum. Fái hann gult spjald heldur hann vottuninni í tvö ár og þarf því að bregðast hratt við  athugasemdum og gangast aftur undir úttekta eftir tvö ár. Ef um rautt spjald er að ræða missir jarðvangurinn vottun sína sem hnattrænn UNESCO jarðvangur.

Þetta er fjórða úttekt Kötlu jarðvangs áður gekkst hann undir úttekt 2011, 2015 og 2017.

Við hvetjum alla til að  skoða myndir af úttektinni; þær lýsa vel fjölbreyttri dagskrá umræddrar úttektarviku. Þær má sjá hér á þessum link:

Myndir úr úttektinni. 

Twitter Facebook
Til baka