21. maí 2021

Katla jarðvangur og nemendur í 3-4 bekk í Víkurskóla fóru í stutta rannsóknarferð út í Víkurfjöru í morgun

Katla jarðvangur og nemendur í 3-4 bekk fóru í stutta rannsóknarferð út í Víkurfjöru í morgun. Áður en haldið var út í fjöru lærðu nemendur um muninn á föstum jarðlögum og lausum, hvað setlagafræði er og hver munurinn er á milli jarðfræðinga sem rannsaka eldfjöll og setlög. Þegar komið var í fjöruna tóku við athuganir á sandinum í fjörunni og hvernig fjaran byggist upp.

Grafin voru tvö lítil snið og lögin sem byggja upp fjöruna skoðuð ásamt mismunandi kornastærð þeirra. Nemendur lærðu samhliða því af hverju það er mismunandi kornastærð í fjörunni og í hvernig aðstæðum má búast við að mismunandi lög byggist upp. Þá sigtuðu nemendur sand til að aðskilja mismunandi kornastærð og tóku sýni. Þá var einnig rölt aðeins eftir fjörunni og mismunandi steinar skoðaðir, meðal annars móberg sem nýttist vel til að útskýra enn betur muninn á lausum og föstum jarðlögum. Veðurblíðan lék við nemendur og kennara, og var ekki betur séð en að allir væru ánægðir með ferðina.

 

Þá mældi 5-10 bekkur einnig sniðin sem þau eru að fylgjast með í Víkurfjöru í lok apríl. Var þetta önnur mæling eldri nemenda í fjörunni og er hluti af rannsóknarverkefni Víkurskóla og Kötlu jarðvangs. Á næsta skólaári munu nemendur síðan fara að vinna úr þeim gögnum sem þau hafa aflað núna í vetur og vor, ásamt því að halda áfram rannsóknum sínum í Víkurfjöru. Nemendur Víkurskóla munu síðan gera grein fyrir fyrstu niðurstöðum sínum næsta vor, en þá verða þau búin að fylgjast með fjörunni í eitt ár.

 

Hér fylgja ljósmyndir af rannsóknum nemenda í fjörunni, fyrst af 3-4 bekk og síðan af mælingum eldri nemenda þann 29. Apríl.

Twitter Facebook
Til baka