Námskeið Kötlu jarðvangs og Vinnumálastofnunar
Vinnumálastofnun leitaði til Kötlu jarðvangs fyrir nokkrum mánuðum um að setja upp námskeið um svæðið innan jarðvangsins. Námskeiðið væri hugsað fyrir enskumælandi fólki sem missti störf sín tengt ferðaþjónustu þegar Covid-19 skall á. Jarðvangurinn tók vel í þessa hugmynd og úr varð að jarðvangurinn stóð fyrir námskeiði nú í mars síðastliðnum fyrir Vinnumálastofnun.
Alls voru 36 nemendur skráðir til leiks og fór skráningin öll í gegnum Vinnumálastofnun. Námskeiðið var í sex daga, tvær klukkustundir í senn, og var kennt í gegnum forritið Zoom. Dagskrá námskeiðsins var fjölbreytileg og komu fjölmargir að kennslu.
Farið var yfir sögu og hlutverk Kötlu jarðvangs, jarðfræði og jarðvættin innan hans, eldfjallakerfi og jökla, fuglalíf og stöðu vistkerfisins, fornleifar og Njálu. Þá voru Umhverfisstofnun, Skógasafn og Vatnajökulsþjóðgarður með kynningu um sig og störf sín og Veðurstofa Íslands kynnti eldfjallavefsjánna islenskeldfjoll.is.
Eftir námskeiðið fengu allir nemendur sem voru með a.m.k. 80% mætingu viðurkenningarskjal fyrir að sitja námskeiðið. Nemendur voru mjög ánægðir með námskeiðið og ráðgerir Katla jarðvangur að halda annað slíkt námskeið, fyrir ferðaþjónustuaðila innan jarðvangsins, nú í sumar. Það námskeið verður auglýst síðar.
Katla jarðvangur vill nýta tækifærið og þakka öllum þeim sem komu að námskeiðinu, nemendum, Vinnumálastofnun og öllum þeim sem fluttu fyrirlestra eða kynningar.