22. febrúar 2021

Katla jarðvangur hefur gert samningum um að gerast aðili að GEOfood merkinu

Katla jarðvangur hefur gert samning um að gerast aðili að GEOfood merkinu, en GEOfood merkið er alþjóðlegt merki fyrir matvöru framleidda innan hnattrænu UNESCO Jarðvanga. Merkið var stofnað af Magma hnattræna UNESCO jarðvangi í Noregi og er opinbert merki matvæla og veitingastaða innan hnattræna UNESCO jarðvanga. Aðeins hnattrænir UNESCO jarðvangar, og framleiðendur og veitingastaðir innan þeirra svæða, mega nota GEOfood merkið. Í dag eru 19 jarðvangar í 12 löndum aðilar að merkinu, en stefnt er að því að merkið verði að minnsta kosti notað af 30% jarðvöngum í Evrópu árið 2023 og í um 10% af jarðvöngum heimsins árið 2025. Ókeypis verður fyrir framleiðendur og veitingastaði að gerast aðili að GEOfood merkinu, en þó er skilyrðið að framleiðandinn eða veitingastaðurinn sé jarðvangsfyrirtæki. Í gegnum GEOfood verkefnið er stefnt að því að styrkja framleiðendur innan jarðvanga sem og að auka samvinnu á milli framleiðanda innan jarðvanga. Þá er einnig stefnt að því að auka umhugsun fólks varðand jarðfræðiarfleifð svæðanna og skapa ný störf. Hér fyrir neðan má lesa nánar um markmið GEOfood merkisins, kostum þess að gerast aðili að því, skilyrðin fyrir notkun þess og hvernig merkið lítur út. Þá mælum við einnig með fyrir áhugasama að kíkja á þessar þrjár síður, en þar má finna meiri upplýsingar um GEOfood merkið (á ensku), bæklinga og kynningarmyndbönd.

www.geofood.no

https://www.facebook.com/groups/301544949912569/?ref=bookmarks

https://www.facebook.com/Ruritage-Appignano-del-Tronto-342602449701080/

 

Markmiðin með GEOfood merkinu eru meðal annars þau að:

 • Styðja við framleiðslu og sölu á matvöru framleiddri innan jarðvanga heimsins, auka sýnileika þeirra og tækifæri fyrir framleiðendur.
 • Auka vitund neytenda um sérstöðu matvæla sem framleidd eru innan jarðvanga
 • Ýta undir upplifun fólks á mat sem framleiddur er innan jarðvanga
 • Styrkja tengsl framleiðenda og fyrirtækja og styrkja þeirra tengsl við jarðvanginn
 • Kynna fólki fyrir samspili matvælaframleiðslu og jarðfræðiarfleifðar innan jarðvanga, en merkingar á GEOfood vörum innihalda upplýsingar um jarðfræðina þar sem matvaran var framleidd
 • Auka vitneskju fólks um þann jarðfræðifjölbreytileika innan jarðvanga
 • Skapa sameiginlegan grundvöll þar sem unnið er að sjálfbærni, fræðslu og ferðamennsku
 • Auka upplifun heima- og ferðamanna á matvælum framleiddum á svæðinu
 • Auka vitund  bæði íbúa innan jarðvangsins og ferðamanna um gildi jarðvanga, um umhverfismál og jarðfræðilegan fjölbreytileika

 

Kostir þess að gerast aðili að GEOfood merkinu eru meðal annars þau að:

 • GEOfood merkið er trygging fyrir neytendur að varan sé hágæða vara, og því eftirsóttari
 • Alþjóðlega þekkt merki sem er tengt við jarðvanga og gæði matvæla
 • Öll fyrirtæki sem gerast aðilar að GEOfood merkinu fá umfjöllun um sig á fésbókar- og heimasíðu Kötlu jarðvangs
 • Jarðvangurinn mun styðja við framleiðendur, bjóða upp á ný tækifæri til að markaðsetja sig, tengingar við aðra framleiðendur í öðrum jarðvöngum, og nýta framleiðsluna við hátíðleg tækifæri sem jarðvangurinn stendur fyrir
 • Katla jarðvangur mun aðstoða framleiðendur og veitingastaði að koma fram upplýsingum um jarðfræðina tengdum matvælunum og vörunum
 • Fyrir þá sem gerast aðilar að GEOfood, þá verður hægt að fá GEOfood merkið á tölvutæki formi eða sem límmiða til að líma á vörurnar.
 • Verður sjálfkrafa hluti af matarleið Kötlu jarðvangs (Katla Geopark food trail) þegar hún verður sett á laggirnar

 

Skilyrðin fyrir framleiðendur og fyrirtæki til að gerast aðili að GEOfood merkinu eru mjög ströng, en það er til að tryggja gæði vörunnar sem neytendur kaupa og að merkið sé ekki misnotað. Skilyrði fyrir því að gerast aðili að GEOfood merkinu eru meðal annars þau að:

 • Hver jarðvangur fyrir sig ber ábyrgð á notkun merkisins og að framleiðendur og fyrirtæki fari eftir skilyrðunum.
 • Framleiðendur þurfa að vera staðsettir innan jarðvangsins
 • Hráefnið má vera unnið fyrir utan jarðvanginn
 • Tengja verður saman matvælaframleiðslu og umhverfið/jarðfræðina, og hafa upplýsingar um tenginguna á vörunni/á matseðlum
 • Uppruni matvörunnar að vera skýr á vörunni og/eða matseðlinum
 • Ekki má nota skordýraeitur eða annað eitur við framleiðsluna
 • GEOfood merkið þarf að vera sýnilegt á veitingastöðum og á heimasíðu þeirra
 • GEOfood matseðlar þurfa að vera innblásnir af jarðfræðiarfleifð svæðisins og útskýra mikilvægi þess fyrir viðskiptavinum.
 • Til að veitingastaður geti haft GEOfood matseðil, þá þarf allavega 50% af matvælunum sem eru á matseðlinum að eiga uppruna sinn úr jarðvanginum, þ.e.a.s. 50% af öllu innihaldi hvers rétts þarf að vera úr jarðvanginum. Þó er nóg að réttur sem er t.d. lambakjöt með meðlæti, að lambakjötið eigi uppruna sinn úr jarðvanginum.
 • Veitingastaðir og framleiðendur þurfa að skila inn árlega stuttri skýrslu til jarðvangsins um hvernig þau hafa notað merkið
 • Veitingastaður eða framleiðandi sem vill gerast aðili að GEOfood merkinu þarf fyrst að vera jarðvangsfyrirtæki, en þá fær viðkomandi sjálfkrafa aðgang að GEOfood merkinu

 

Á myndunum hér við hliðina má sjá nokkur drög að því hvernig GEOfood merkið mun líta út með merkingum Kötlu jarðvangs:

Dæmi 1: Einföld merking með GEOfood merkinu og Katla Geopark merkinu.

Dæmi 2: Einföld merking með GEOfood merkinu, Made in Katla Geopark merkinu og QR kóða fyrir Heimasíðu fyrirtækisins/jarðvangsins

Dæmi 3: Merking með GEOfood merkinu, Made in Katla Geopark merkinu og upplýsingum um vöruna og jarðfræðina tengda henni

Dæmi 4: merking til að hengja utan á vöruna, með merkjum GEOfood og made in Katla Geopark, ásamt fræðslu um jarðfræðina þar sem varan er framleidd á bakhliðinni. Þessar merkingar geta innihaldið meiri upplýsingar um vöruna og jarðfræðina tengda henni. Hægt er að breyta litasamsetningu, gerð og innihaldi texta, hvort að QR kóði sé til staðar eða ekki o.s.frv.

Framhlið - merki GeoFood og jarðvangsins

Bakhlið - upplýsingar um vöruna og jarðfræðina

Twitter Facebook
Til baka