17. febrúar 2021

Ný færanleg fræðslusýning Kötlu jarðvangs

Ný færanleg fræðslusýning Kötlu jarðvangs hefur nú verið sett upp í Kötlusetri í Vík í Mýrdal. Sýningin samanstendur af þremur svokölluðum „hop-up“ stöndum. Á þeim má finna fróðleik á bæði íslensku og ensku um ýmislegt innan jarðvangsins, svo sem jöklana, fuglalífið, söguna og hin ýmsu jarðvætti. Myndir af stöndunum fylgja hér með, en síðan má að sjálfsögðu kíkja við í Kötlusetri og skoða sýninguna betur þar.

Verkefnið um fræðslusýninguna hlaut styrkt frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og vill jarðvangurinn þakka þeim kærlega fyrir. Textinn var skrifaður af Kötlu jarðvangi, sýningin sett upp af Elínu Maríu hjá Myndvist og prentuð út af Fagformi á Selfossi. Þá lögðu margir til ljósmyndirnar sem eru á stöndunum, m.a. media.south.is, Skógasafn, Páll Jökull Pétursson, Þórir N. Kjartansson og Þorsteinn Jónsson og vill jarðvangurinn koma sérstökum þökkum til þeirra sem og allra sem hafa komið að verkefninu.

Sýningin verður fyrst um sinn í Kötlusetri, en sýningin er ætluð sem farandssýning og mun því verða færð af og til. Fyrir þau fyrirtæki sem hefðu áhuga á að fá sýninguna til sín er bent að hafa samband á johannes@katlageopark.is

Twitter Facebook
Til baka