11. desember 2020

Alþjóðadagur fjalla 11. desember 2020, Lómagnúpur

Í dag er alþjóðlegur dagur fjalla og því vildum við hér í Kötlu jarðvangi deila með ykkur smá upplýsingum um fjöll og þá aðallega um eitt af okkar uppáhalds fjöllum, Lómagnúpi í Skaftárhreppi.

Fjöll eru eitt af áhugaverðustu fyrirbærum tengdum jarðfræði og fjalllendi er einnig mjög mikilvægt vistkerfi fyrir margar mismunandi lífverur. Þema alþjóðadags fjalla árið 2020 er að vernda líffræðilega fjölbreytni í fjalllendi. Fjalllendi eru mjög mikilvæg vistkerfi og þrífst stór hluti plöntu- og dýraríkis innan þess. Þá er fjalllendi einnig mikilvægt fyrir mannkynið, en um 15% mannkyns býr í fjalllendi og sér um helmings mannkyns fyrir drykkjarvatni.

Fjalllendi er í hættu i dag, bæði vegna loftlagsbreytinga og ofnýtingar, og eins og Sameinuðu þjóðirnar hafa minnt á hafa loftlagsbreytingar, ósjálfbærir búskaparhættir, námuvinnsla, skógarhögg og ólöglegar veiðar mikil neikvæð áhrif á lífríki fjalllendis. Þar að auki hefur landnýting, breytingar á gróðurþekju og náttúruhamfarir hraðað hnignun lífríkis og aukið enn frekar á erfiðleika fyrir samfélög í fjalllendum. Þá getur hnignun vistkerfa og fólksflutningar leitt til þess að menningararfur svæða og fornar hefðir glatast, arfur og hefðir sem hafa virkað í sátt og samlyndi við sitt nánasta umhverfi í margar kynslóðir.

Samkvæmt skýrslum Sameinuðu þjóðanna, þá eru um 12% allra fuglategunda og um 10% allra plantna og dýrategunda í hættu á að verða útdauðar vegna áhrifa mannsins og taps á vistkerfum. Vísindamenn vara við því að árið 2050 gæti um þriðjungur dýrategunda verið útdauðar vegna loftlagsbreytinga. Við sjáum nú þegar afleiðingar versnandi ástands í heiminum, t.d. með Covid-19 faraldrinum, loftlagsbreytingum, ofhitnun svæða, hamförum, útrýmingu dýralífs, o.s.fr.. Hér á landi er fjalllendi mikilvægt fyrir gróður og dýralíf, ásamt því að þjóna sem varpstöðvar fyrir ótal fuglategundir og

 

Lómagnúpur er talinn af mörgum, þar á meðal jarðvanginum, eitt fegursta fjall landsins. Fjallið stendur tignarlega yfir landsvæðinu í kring, með Skeiðarársand fyrir framan sig, með vestari hluta Vatnajökuls sér að baki og Skeiðarárjökul sér til hliðar. Lómagnúpur er hluti af stærri fjallgarði sem nefnist Björninn, en sú eldstöð eða eldstöðvar sem byggðu hann upp eru ekki virk lengur. Neðstu jarðlögin í Lómagnúpi eru um 2.5 milljón ára gömul en þau efstu um 1 milljón ára. Lómagnúpur var því að mestu leyti byggður upp af eldgosum undir jöklum ísaldar, þar sem þykk móbergs- og kubbabergslög hlóðust upp á kuldaskeiðum á meðan hraun rann á hlýskeiðum. Jarðlagastaflinn er mjög greinilegur fremst í fjallinu, eða við Lómagnúpsnef, enda gamalt standberg eða sjávarhamrar. Standberg eru nær lóðréttir klettaveggir sem myndast þegar hafalda grefur undan berginu og er Lómagnúpur eitt af þónokkrum standbergum sem eru langt inn í landi. Hafaldan gróf undan nefinu á hlýskeiðum síðustu ísaldar og sérstaklega við lok ísaldar, þegar sjávarstaða var mun hærri en hún er nú. Sjávarstaðan lækkaði þó fljótt aftur, ásamt því að sandarnir á Suðurlandi tóku að byggjast upp, og strandaði Lómagnúpur því langt inn í landi.

Hafaldan er ekki eina aflið sem valdið hefur rofi á fjallinu en jöklar og berghlaup hafa einnig mótað það . Þó svo að enginn jökull sé lengur á fjallinu sjást greinileg ummerki eftir þá í hlíðum þess, en fjölmargir dalir ganga inn í fjallgarðinn. Þá hefur líklega einnig rofið töluvert ofan af fjallinu, en svæðið hefur líklega verið jökullaust síðan við lok síðustu ísaldar. Þó er ekki langt í Skeiðarárjökul, en skriðjökullinn gengur úr Vatnajökli og er rétt norðaustan við Lómagnúp. Frá Skeiðarárjökli liggja jökulárnar Súla og Gígjukvísl, en einnig Núpsá sem nú er að mestu bergvatnsá, en var áður jökulsá. Mörg jökulhlaup hafa komið niður á sandana þar og hafa árnar hjálpað til við að dreifa skriðuefni frá fjallinu, sérstaklega austan megin en þar eru skilin á milli fjalls og undirlendis einkar áberandi. Skriðuefnið verður til vegna veðrunar og rofs á fjallinu en þá hafa einnig nokkur berghlaup fallið úr Lómagnúpi. Seinasta stóra berghlaupið átti sér stað þann 7. júní árið 1998. Þá féllu nokkrar skriður niður austan megin í Lómagnúpi og lokuðu veginum inn að Núpsstaðaskógi um tíma. Úr vestanverðu fjallinu kom hins vegar stærsta þekkta berghlaupið, talið hafa fallið í júlímánuði árið 1789. Þetta hlaup kallast Hlaupið og sést greinilega frá þjóðveginum enn í dag. Það hlaup hefur verið gríðarstórt, um 1.5 milljónir rúmmetra og um 1200 m langt, og eru nú tvær haugstjarnir í skriðunni ásamt tveimur móbergsbjörgum sem voru nýtt sem fjárbyrgi. Rétt norðan við Hlaupið er síðan önnur skriða sem er mun eldri og er ekki þekkt hvenær hún féll.

Lómagnúpsnefið er 671 metrar á hæð en hæst nær Lómagnúpur upp í 764 metra. Hægt er að ganga upp á Lómagnúp, bæði austan og vestan megin frá, en gangan er ekki auðveld þar sem gönguhækkun er um 700 metrar og all bratt víða. Það er þó þess virði að gera sér ferð þarna upp þar sem útsýnið þaðan er með því stórkostlegra sem gerist á Íslandi, enda er margt fagurt um að lítast þar í nágrenninu.

Þá er vert að minnast að fjölmörg fögur fjöll eru innan Kötlu jarðvangs og eru gönguleiðir á mörg þeirra. Hægt er að nálgast gönguleiðir á Lómagnúp, og önnur fjöll, bæði hér http://www.katlageopark.is/um-jardvanginn/kort/gonguleidakort/ og á https://wapp.is/forsida/.

 

Ljósmynd : Lómagnúpsnefið og austurhlið Lómagnúps blasir hér við, ásamt Núpsá og Súlu. Hlaupið, stóru skriðuna sem féll 1789, má sjá vestan við (vinstra megin) við Lómagnúp. Ljósmynd: Þorsteinn Roy Jóhannsson

 

 

 

Heimildaskrá:

Guðmundur Kjartansson, 1968. Steinsholtshlaupið 15. Janúar 1967. Náttúrufræðingurinn, 3-4:120-169

Guttormur Sigbjarnarson, 1983. The Quaternary alpine glaciation and marine erosion in Iceland. Jökull 1:87-98

Haukur Jóhannesson 1984. Skalf þá og nötraði bærinn. Náttúrufræðingurinn, 1-2:1-4

Heimasíða alþjóðlegu neti jarðvanga (Global Geoparks Network) http://globalgeoparksnetwork.org/?p=2314

Hjörleifur Guttormsson 1993. Við rætur Vatnajökuls. Byggðir fjöll og skriðjöklar. Árbók Ferðafélags Íslands 1993. 265 ss

Ingólfur Ísólfsson, 1989. Útsýni af Öræfajökli. Jökull, 1:99-103

Jón Jónsson, 1974. Sprungurnar í Lómagnúpi og fleira. Náttúrufræðingurinn, 1:41-44

Sigurður Steinþórsson. „Hvernig myndast standberg?“ Vísindavefurinn, 25. október 2006. Sótt 10. desember 2020. http://visindavefur.is/svar.php?id=6336.

Snorri Baldursson, Sveinn P. Jakobsson, Sigurður H. Magnússon og Guðmundur Guðjónsson (2006). Náttúrufar og náttúruminjar suðvestan Vatnajökuls. Náttúrufræðistofnun Íslands. Skýrsla NÍ 06008

Tómas Jóhannesson og Jón Gunnar Egilsson, 2009. Hættumat fyrir Vík í Mýrdal. Greinagerð með hættumatskorti. Veðurstofa Íslands. Skýrsla VÍ 2009-008

Þorsteinn Sæmundsson 2000: Berghrun í Seldalssniði í austanverðum Lómagnúp, 7. júní 1998.

Náttúrustofa Norðurlands vestra. Greinargerð NNV-2000-004.

Þorvaldur Thoroddsen, 1894. II Ferð um Vestur-Skaptafellssýslu sumarið 1893. Andvari, 1:44-161

 

 

Twitter Facebook
Til baka