11. desember 2019

Alþjóðlegur dagur fjalla | 11. desember.

Steinafjall

Í dag er alþjóðlegur dagur fjalla og því vildum við hér í Kötlu jarðvangi deila með ykkur smá upplýsingum um eitt af okkar uppáhalds fjöllum, Steinafjall í austanverðum Eyjafjöllum. Steinafjall er partur af Eyjafjallajökuls eldstöðvarkerfinu, sem er búið að vera virkt a.m.k. seinustu 700 þúsund ár og hefur byggt upp Eyjafjöllin. Steinafjall var því að mestu leyti byggt upp af eldgosum undir jöklum síðasta jökulskeiðs þar sem móbergs og kubbabergslög hlóðust upp á kuldaskeiðum á meðan hraun rann á hlýskeiðum. Lögin mynda oft mikla lagskiptingu í fjallinu og er fjallið nokkuð lýsandi fyrir jarðfræðina á suðurhorninu. Jarðlagastaflinn er mjög greinilegur á suðurhlið Steinafjalls, enda er suðurhliðin forn sjávarhamar sem var rofin af sjó við lok síðasta jökulskeiðs, þegar afstæð sjávarstaða var mun hærri en hún er nú. Klettahamrarnir ná upp í um 400-500 metra hæð en hæsti punktur fjallsins er hins vegar tindurinn Leynir í um 809 metra hæð.

Jöklar hafa valdið miklu rofi á fjallinu og er fjallið nánast aðskilið Eyjafjöllum en lítill háls tengir þau saman sem kallast Kolbeinsskarð og tveir dalir, Holtsdalur og Núpakotsdalur, liggja vestan og austan megin við fjallið. Talsverð hrunhætta er úr klettahömrunum og hafa stór björg og aurskriður fallið þaðan á undanförnum áratugum og öldum, ásamt krapaflóðum og nokkrum eðjuflóðum eftir eldgosið í Eyjafjallajökli 2010. Skriðuefni hefur hlaðist upp í aldanna rás og hylur nú neðstu 160-200 m af fjallinu sunnan megin. Björgin og aurskriðurnar sem hafa fallið hafa oft ollið töluverðu tjóni á ræktuðu landi og girðingum, og árið 1997 lokaðist þjóðvegurinn um tíma þegar um 50-70 tonna bjarg stöðvaðist á miðjum veginum.

Skriðuefnið hefur hins vegar nýst ágætlega, sérstaklega fyrr á öldum, en enn má sjá túngarða og landamerki á svæðinu sem eru hlaðin úr grjóti úr skriðunum. Þá liggja einnig mörg býli upp við brekkufótinn á suðurhlíð Steinafjalls, sem veitir ágætis skjól í norðanáttinni en mikil vindmögnun á sér stað á svæðinu vegna Eyjafjalla og er því oft ansi hvasst á svæðinu.

Þá er einnig fjölmörg örnefni að finna í Steinafjalli, og er örnefnaskífa staðsett við bæinn Steina 1 (við veitingastaðinn Gamla fjósið), en líklega er þekktasta örnefnið Ingimundur. Ingimundur er stór og áberandi klettur á suðurhliðinni og er nefndur eftir einum af þrælum (eða sonum) Rúts á Rútafelli. Rútur hafði átt í deilum við héraðsmenn og fengu þeir þræla Rúts til að drepa hann. Rútur uppgötvaði hins vegar tilræðið og drap þrælana er þeir flúðu, og var þrællinn Ingimundur veginn við klettinn á Steinafjalli og kletturinn kallaður Ingimundur eftir það.

Kletturinn sjálfur var fyrst klifinn árið 1988, af þeim Haraldi Erni Ólafssyni og Guðmundi Eyjólfssyni, og hefur verið nokkuð vinsæl klifurleið síðan. Þá eru einnig hægt að ganga á Steinafjall, en ekki er mælt með því að fara upp suðurhliðina nema með leiðsögn eða leiðbeiningum frá heimamönnum, enda eru björgin þar þverhnípt og auðvelt að koma sér í sjálfheldu. Þá er fjallið með alþjóðlega mikilvæga sjófuglabyggð þar sem það er töluvert af fýl í hömrunum, sérstaklega að sumarlagi, og geta þeir oft verið erfiðir viðureignar og ekki ástæða til að raska friði þeirra að óþörfu.

 

Suðausturhlið Steinafjalls. Ingimundur skagar upp frá klettabrúninni vinstra megin. Einnig má sjá aðeins af jarðlagaskiptingunni, en þykku lögin eru hraunlög og kubbaber, með brúnleit móbergslög inn á milli. Skriðuefnið við rætur fjallsins má einnig sjá vel, en stór hluti þess er nú gróðri vaxið.Suðausturhlið Steinafjalls. Ingimundur skagar upp frá klettabrúninni vinstra megin. Einnig má sjá aðeins af jarðlagaskiptingunni, en þykku 
lögin eru hraunlög og kubbaberg, með brúnleit móbergslög inn á milli. Skriðuefnið við rætur fjallsins má einnig sjá vel, en stór hluti þess er nú gróðri vaxið.


  

Heimildir/references:

Jón Kristinn Helgason og Esther Hlíðar Jensen (2011). Eðjuflóð, aurskriður og framburður gosefna niður á láglendi með vatnsföllum vorið 2011 vegna gjósku úr Eyjafjallajökulsgosinu. Veðurstofa Íslands, skýrsla VÍ 2011-001.

Ólafur Ragnar Helgason (2002). Lítill leiðarvísir um Ingimund. Sótt af:  https://rafhladan.is/handle/10802/7891 

Páll Einarsson og Ásta Rut Hjartardóttir 2015. Structure and tectonic position of the Eyjafjallajökull volcano, S-Iceland. Jökull 65, 1-16

Þorsteinn Sæmundsson (1997). Grjóthrun úr Steinafjalli í austanverðum Eyjafjöllum, 2. September 1997. Veðurstofa Íslands, greinarg. 97029. Sótt af https://rafhladan.is/handle/10802/7891

vu2030.jerry.1984.is/fjallafelagid/frettir/371/Steinafjall_undir_Eyjafjollum/

www.mbl.is/greinasafn/grein/311275/

Twitter Facebook
Til baka