03. desember 2019

Vel heppnað fræðslukvöld um alþjóðadag viðbragða

Mörgum leikur forvitni á að vita meira um hin illviðráðanlegu náttúruöfl sem leynast innan jarðvangins og hafa mótað búsetusöguna. Það væri auðvitað ekki auðvelt og mögulega ekki gerlegt ef það væri ekki fyrir okkar dýrmætu aðila sem vinna af kappi við að vakta, rannsaka,  undirbúa og vara okkur við þegar náttúruöflin minna á sig -  eldfjöllin okkar sem flest öll eru hulin jöklum eru sjaldnast saklaus þegar þau vakna til lífs, sterkir sjávarstraumar sem rjúfa burt strendur og saklausa ferðalanga, straumarnir grafa sig jafnvel inn í klettabjörgin í ungt og ómótað bergið og valda skriðum og hruni, og síðast en ekki síst, það sem nú er að eiga sér stað vegna loftslagsbreytinga, þ.e. hop jöklanna. Hlýnun jarðar hefur margvíslegar breytingar og afleiðingar í för með sér, fæstar góðar,  og við þurfum að vera á varðbergi vegna þeirra.  Listinn er ekki tæmandi yfir þær hættur sem leynast hér í jarðvanginum, einu síbreytilegasta svæði landsins og jafnvel á jörðinni. 
Árið 1989 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna að skilgreina tiltekinn dag til að stuðla að alþjóðlegri vakningu til draga úr þeim hörmungum sem fylgt geta náttúruvá. Dagurinn hefur það að markmiði að vekja athygli á mikilvægi þess að taka þátt í að minnka þá hættu sem við stöndum frammi fyrir. 
Fræðslufundurinn í gestastofu Kötlu jarðvangs var skipulagður í tengslum við þennan alþjóðadag um jarðvá.  Þrír sérfræðingar komu og fræddu áhugasama um málefni tengd þessu, Kjartan Þorkelsson lögreglustjóri á Suðurlandi sagði frá almannavörnum á Suðurlandi og breyttan veruleika með auknum straumi ferðamanna í jarðvanginum sem veldur aukinni umferð, aukinni slysahættu og álagi á akvegi og talsvert breyttar forsendur við rýmingu á hættulegum ferðamannastöðum. Elísabet Pálmadóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, fræddi okkur um vöktun Veðurstofunnar og hvernig hvert okkar eldfjalla kallar á mismunandi verkferla þegar virknin þykir óvenjuleg og hringir viðvörunarbjöllum. Hún nefndi einnig að hvergi á sér hliðstæðu sameiginleg aðkoma eftirlits með veðri og jörðu allan sólarhringinn eins og hér á Íslandi! Einnig sýndi hún okkur líkan af öskudreifingu á rauntíma, ef gos yrði nákvæmlega núna (þegar fræðslufundurinn var haldinn) þá yrði dreifing öskunnar svona með tillit til veðurs og vinda: https://dispersion.vedur.is/jsmap/index.html?run_uuid=e6839fb0-641e-44a6-80af-7de96db5adc8

Að lokum fræddi Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur hjá Háskóla Íslands okkur um 180 m sig á tveggja km löngu brotsári við Tungakvíslarjökul hjá Goðabungu sem er talin tengjast mikilli óútskýrðri jarðskjálftavirkni undanfarið. Enn er verið að rannsaka þessar rosalegu breytingar en kenningar eru uppi um að mögulega sé leynigúll sökudólgurinn, það gæti svipað til atburða sem áttu sér stað í Mount St Helens 18. maí 1980 en þar varð eldgos þegar fjallshlíð gaf undan og gúllinn hreinlega sprakk með mikilli myndun gusthlaups sem varð a.m.k. 57 manns að bana. Þorsteinn talaði líka um þær lítt rannsökuðu breytingar sem nú eru að eiga sér stað vegna hop jöklanna, þær hlíðar sem áður umluktu jöklana eru margar hverjar að þiðna vegna jökulhörfunar og eru að miklu leyti óstöðugar. Til að bæta gráu ofan á svart eru einnig að myndast stór og djúp jökullón framan við helstu skriðjöklana og það þarf ekki að spyrja að leikslokum ef það hrynur heil fjallshlíð ofan í lón, en það gæti verið eins og að hoppa ofan í fullt baðkar! 
Þó náttúran sé fögur þá leynast hætturnar víða og mikilvægt að við séum öll meðvituð um þær. Í jarðvanginum er fylgst vel með stöðu mála sem gerir okkur fært að upplifa og njóta þess að búa á svona lifandi og spennandi svæði.  Þetta var vel heppnaður opinn fræðslufundur með áhugaverðu efni sem alla varðar og við þökkum öllum kærlega fyrir komuna og skemmtilegar umræður! 

Twitter Facebook
Til baka