21. ágúst 2019

Skortir fjármagn til að fylgjast með hrunhættu

Útlit er fyrir áframhaldandi hrun í Reynisfjöru og athuganir sýna að klettabergið við fjöruna er talsvert sprungið. Sérfræðingur hjá Veðurstofunni segir að ekki hafi fengist fjármagn til að fylgjast með hrunhættu við Reynisfjöru eða aðra ferðamannastaði víða um land.
 
Það hrundi stór fylla í Reynisfjöru í fyrrinótt og mildi þykir að enginn var í fjörunni þegar það gerðist.

Hrunið ekki þurft að koma neinum á óvart

Sveinn Brynjólfsson, ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að þetta hrun hafi í sjálfu sér ekki þurft að koma neinum á óvart. „Í sjálfu sér ekki nei. Þetta er svona álíka hrun og varð þarna 2005. Þá kom dálítil fylla þarna ofan í fjöruna.“

Segir skorta fjármagn til að vakta ferðamannastaði

Og hann segir að hingað til hafi ekki hafi fengist fjármagn til að fylgjast með hrunhættu við Reynisfjöru eða aðra ferðamannastaði víða um land. En þó virðist vera að skapast einhvers konar vakning í þá átt, bæði hjá almenningi og stjórnvöldum, því það skorti mælingar og eftirlit við marga ferðamannastaði. „Við vitum um þónokkuð marga staði þar sem við myndum vilja setja upp tæki. Það vantar bara fjármagnið til að kaupa þan búnað og síðan að setja það upp.“

Líklegt að það hrynji áfram í Reynisfjöru

Og það sé mjög líklegt að áfram hrynji ofan í Reynisfjöru. Þarna hafi meira hrun orðið eftir að stóra fyllan kom. Í gær hafi einnig orði vart við töluvert hrun eitthvað fram eftir degi. „Það litur út fyrir að það sé dálítið sprungið bergið þarna í kring sem getur þá verið óstöðugt áfram. Allavega að það sé að hrynja dálítið stöðugt í gær, segir manni bara að það sé ekki vert að vera neitt nærri þessu,“ segir Sveinn.

Hálsanefshellir í Reynisfjöru. Eins og sjá má hrundi talsvert í hellinum í gærnótt eða í morgun.

Hálsanefshellir í Reynisfjöru. Eins og sjá má hrundi talsvert í hellinum sjálfum 16. nóvember 2013                        MYND/GRÉTAR EINARSSON

Twitter Facebook
Til baka