03. maí 2019

Takmörkuð umferð um Dyrhólaey

Umhverfisstofnun hefur tekið þá ákvörðun að takmarka umferð um Dyrhólaey 3. maí til 25. júní milli  kl. 9:00 og 19:00. Þá verður umferð almennings einvörðungu heimil um Lágey og Háey eftir merktum göngustígum og akvegum. Á næturnar er friðlandið lokað frá kl. 19:00 til 9:00.

Frá 25. júní kl. 9:00 verður friðlandið opið allan sólarhringinn. Þessi ákvörðun er tekin í kjölfar skýrslu fuglafræðings á árlegri athugun á stöðu fuglalífi í Dyrhólaey og með tilliti til verndunar fuglalífs á varptíma.

 

 

 

Hér að neðan má lesa rökstuðning ákvörðunarinnar (smellið hér fyrir PDF útgáfu af heimasíðu Umhverfisstofnunar):

 

 

 

 

 

 

 

 

FUGLALÍF Í DYRHÓLAEY SUMARDAGINN FYRSTA 25. APRÍL 2019
TILLAGA AÐ OPNUNARTÍMA ÁRIÐ 2019

Erpur Snær Hansen

27. Apríl 2019

 

Fuglalíf Dyrhólaeyjar var athugað 25. Apríl 2019 að beiðni Umhverfisstofnunar (UST). Tilgangur könnunarinnar var að afla upplýsinga til grundvallar ákvörðunar um takmörkun aðgengi almennings að eynni um varptíma 1. maí – 25. júní en skilmálar í auglýsingu um friðum Dyrhólaeyjar frá 1978 heimila UST að setja slíkt umferðarbann. Daníel Freyr Jónsson sérfræðingur hjá UST og Eva Þorsteinsdóttir æðarbóndi úr Garðkoti voru með í för. Skimað var af Háey og æðarfuglar taldir, gengið var með suður- , austur- og norðausturströndum Lágeyjar. Veður var sæmilegt, skýjað, þurrt en fremur hvasst >16 m/s og talsverð alda.

Samtals sáust 26 tegundir fugla. Lítið sást af fuglum ofan á Háey, um 100 máfar (aðallega silfurmáfar) voru á flugi í uppstreymi í fremur hvössum vindi þar. Rita sat í Tónni og fýlar sátu þétt í og á dröngunum og víða í klettum á landi. Nokkrir svartbakar, sílamáfar, hvítmáfar, skúmar og hrafnar sáust á stangli. Talsvert sást af fuglum í Lágey og næsta nágrenni, hrossagaukur, stelkar, tjaldar, 2 bjargdúfur, steindeplapar og þúfutittlingur. Við lónið vestan við eyna voru fjórir hettumáfar, 250 jaðrakanar, einn gráhegri, auk heiðlóu og lóuþræla og kjóapars. Ein æðarkolla og tvö pör af stokkönd voru einu endurnar þar. Á sjó sáust tugir langvía, teista, og nokkrir lundar auk landsels í ósnum. Alls sáust 232 æðarfuglar (119 karlfuglar og 113 kvenfuglar), næstum allir á sjó suður af eynni en 35 á landi undir NA-horni Lágeyjar við ósinn. Aðeins örfáir (<5) veturliðar (karlfuglar á 1. vetri) sáust sem er sterk vísbending um lélegan varpárangur árið 2018 og nýliðun. Frá 2011 hafa ekki verið taldir færri æðarfuglar eins og nú, og að undanskildum árunum 2011 og 2015 (311 og 330 fuglar) hefur fjöldinn verið á milli 600 og 900 fuglar. 1,2 Líklegt er að sjólag hafi eitthvað minnkað sýnileika fuglana nú. Æðarfugli í Dyrhólaey hefur hinsvegar fækkað mikið frá því sem áður var (Eva Þorsteinsdóttir munnleg heimild), en ástæður fækkunarinnar eru óþekktar. Fjöldi talinna æðarfugla í lok apríl segir lítið um líklegan fjölda varppara sama ár, en veitir hinsvegar mikilvægar upplýsingar um hlutfall veturliða sem endurspeglar nýliðun frá því árinu fyrr.

Sjófuglar eru algengastir fugla í Dyrhólaey, en öllum verpandi tegundum hefur farið þar fækkandi frá aldamótum2 , að æðarvarpi undanskyldu sem hefur verið nokkuð stöðugt 2011-2016, og að meðaltali 161 hreiður (n=5, SD=54)1 . Bjargfuglar verpa flestir í dröngum og björgum og eru að mestu eða öllu lausir við áhrif ferðamanna og landrándýra. Hinsvegar mætti bæta mætti aðgengi ferðamanna með uppsetningu a.m.k. tveggja landfastra útsýnissjónauka austan og vestan við vitann og auka upplifun ferðamanna án truflunar fyrir fuglalíf. Lundi. Í Lágey væri heppilegt að koma fyrir niðurgröfnu (m.a. til að minnka landslagsáhrif) ílöngu skoðunarhúsi (observation hide) við lundavarpið suður af varpinu (horft úr húsinu í norðurátt, yfir lundabyggðina í prófíl við brekkuna). Húsið lægi í austur-vestur og gengið væri inn í hvarfi frá varpinu að sunnanverðu. Myndi þetta gefa ferðamönnum færi á að skoða og mynda lunda á stuttu færi en um leið hlífa lundanum við truflun vegna mannaferða. Minkur getur auðveldlega eytt litlu lundavarpi eins og í Dyrhólaey í einni heimsókn og mætti íhuga að setja 2 minkahelda girðingu til varna umhverfis varpið á Lágey a.m.k. Kríu hefur fækkað mikið og ekki var til bóta að byggja salerni á helsta varpstaðnum. Kría verður fyrir mikilli truflun af nálægri umferð manna sem getur valdið því að varp misfarist, sérstaklega í rysjóttri tíð. Takmörkun umferðar nálægt kríuvarpi er augljós lausn. Æðarfugl. Það vekur sérstaka athygli að eina árið (2012) á tímabilinu 2011-2016 sem refur sást ekki á eynni var fjöldi æðarhreiðra talsvert yfir meðaltali eða 253 hreiður. Það er ekki þar með sagt að refur og minkur haldi varpinu niðri í Dyrhólaey, en nauðsyn strangs eftirlits er augljós. Áhrif refa og minka á æðarfugl eru mjög mikil og þarf ekki nema eina óheppilega heimsókn til að valda miklum skaða þannig að fuglinn færi jafnvel varpstaði sína þaðan burt eða hætti við varp. Um árabil hefur vel verið fylgst með landrándýrum af Evu Þorsteinsdóttur sem fer daglega um eyna snemma á morgnana í maí og júní og skimar eftir dýrum og ummerkjum þeirra vestan við eyna, og dýr sem sjást hafa snarlega verið felld.

Umferð manna, sérstaklega að næturlagi hefur reyndar fælandi áhrif á landrándýr, en umferð ferðamanna hefur stóraukist á síðastliðnum áratug eins og alkunna er. Umferðarstýring ferðamanna seinni ár hefur reynst fremur torveld framkvæmd á mjög vinsælum stöðum samkvæmt upplýsingum frá starfsfólki UST, flest ferðafólk virðir afmarkaða göngustíga, en með svo mikilli umferð fólks eins og raun ber vitni er erfiðleikum bundið að takmarka umferð allra ferðamanna um viðkvæm varplönd. Virða allmargir gestir ekki lokanir eða tilmæli á skiltum né landvarða, og er þetta vandamál ekki bundið við skort á glöggri afmörkun gönguleiða t.d. með köðlum. Því er eðlilegast að reynsla landvarða sé lögð til grundvallar mati á því hvort hægt sé að beina umferð ferðamanna frá:

(1) æðarvarpi með norðurbrúnum Lágeyjar,
(2) kríuvarpi við tjörn við veginn upp á Háey,
(3) á vestanverðri Lágey þar sem hefur verið strjált æðarvarp,
(4) meðfram lónfjörunni vestan undir Háey,
(5) lundavarp á austanverðri Lágey, sem og
(6) lundavarpi austan við vitann á Háey.

Lagt er til árið 2019 með að hafa Dyrhólaey opna 1. maí til 25. júní að því fyrirliggjandi að:

(1) Landverðir treysti sér til að takmarka umferð um fyrrgreind varplönd, að öðrum kosti er lagt til að lokað verði fyrir umferð fyrrnefnt tímabil. Eðlilegt er að loka Dyrhólaey að næturlagi á þessu tímabili, þar sem umferðareftirlit er ekki mögulegt. Talsvert hefur reyndar verið um að fólk virði ekki umferðarbann að næturlagi undanfarinn ár og þá aðallega ljósmyndarar.
(2) Komið verði upp stórum og læsilegum skiltum á Íslensku, Ensku og etv. fleiri tungumálum sem kveði á umgengnisreglur (þ.m.t að útivera gæludýra sé bönnuð).
(3) Vegurinn verði færður frá tjörninni á Lágey, en þangað til verði einungis leyfð umferð bíla þar framhjá.
(4) Afmörkun göngustíga með böndum, sem er vel á veg kominn.
(5) Landvörður sé búsettur í eynni 1. maí – 15. júlí, en landvarsla er nú þegar orðin allt árið.

Heimildir
1        Sigfússon, A. Þ. Fuglalíf í Dyrhólaey - Minnisblað. (Verkís, 2018).
2        Hansen, E. S. & Sigurðsson, I. A. Úttekt á fuglalífi í Dyrhólaey 2012.
           Unnið fyrir Umhverfisstofnun október 2012. 17 (Náttúrustofa Suðurlands, Vestmannaeyjar, 2012).

Twitter Facebook
Til baka