09. nóvember 2018

RURITAGE - Menningararfleifð sem hvati fyrir sjálfbæra þróun!

4. - 8. júní síðastliðinn fóru starfsmenn Kötlu Geopark á svokallaðan "kick-off" fund í alþjóðlegu samstarfsverkefni sem nefist RURITAGE (afleiða af tveimur orðum; Rural & Cultural Heritage). Fundurinn fór fram í Ítalíu og heldur Háskólinn í Bologna utan um verkefnið, en fundurinn fór fram í þeirri fallegu borg. 

Við hjá Kötlu UNESCO Global Geopark erum þáttakendur í stóru samstarfsverkefni er nefnist „RURITAGE - Cultural heritage as a driver for sustainable growth“ sem stendur yfir í 4 ár. Verkefni þetta inniheldur 38 þátttakendur frá 19 löndum í Evrópu og Suður Ameríku. Snýst það um að miðla upplýsingum um aðferðir og reynslu reyndari aðila (Role Models) til lítt reyndra aðila (Replicators) sem þarfnast uppbyggingar og skipulags í ákveðnum flokkum (e. Systemic Innovation Areas) innan verkefnisins. Okkar hlutverk er að vera Role Model eða fyrirmynd í áfallaþoli/seiglu (e. Resiliance) fyrir lítið sveitarfélag á Ítalíu sem lenti í jarðskjálfta og hremmingum í kjölfar hans, ásamt fjölmörgum öðrum aðilum sem koma til með að geta nýtt sér okkar sögu, reynslu og sérþekkingu á viðbrögðum við náttúruvá og með sérstaka áherslu á menningararfleifð svæðisins.  

Íbúar jarðvangsins (geopark) og í raun Íslands í heild, búa við aðstæður þar sem náttúruöflin hafa margt að segja um líf fólks og þróun menningar og samfélags í gegnum ár og aldir. Reynsla okkar í návígi við eldstöðvar og afleiðingarnar sem af þeim geta hlotist hafa mótað mannlífið og skapað ýmsar hefðir í formi þjóðsagna, sagnahefðar, menningarminja og byggingaraðferða svo eitthvað sé nefnt, en ekki finnast margir staðir í heiminum sem lýsa álíka aðstæðum og finnast hér á landi. Í ljósi þessarar sérstöðu búa Íslendingar yfir mikilli reynslu er kemur að náttúruvá, og er það okkar hlutverk að miðla þessari þekkingu og aðferðum svo aðrir geta notið góðs af. 

Fundurinn var vel heppnaður, en Íslendingarnir áttu nokkuð erfitt með ítalska hitann, enda lítið um loftkælingu í virðulegum sölum Háskólans í Bologna. Burtséð frá því var ógrynni af upplýsingum miðlað til þátttakenda og dagskráin strembin, enda um gríðarstórt verkefni að ræða og verður gífurlega spennandi að fá að taka þátt í og þróa verkefni af þessari stærðargráðu. 

Samskipti og tengsl eru mikilvægur þáttur í verkefninu og í raun sá mikilvægasti þegar kemur að þróun þess. Á næstu mánuðum og árum leitumst við að skapa viðamikið og fjölbreytt tenglsanet sem miðast að því að rödd einstaklinga, fulltrúa ýmissa fræðastofnana, fyrirtækja, klasa og ríkisstofnana heyrist hátt og snjallt er kemur að því að skilgreina og formgera verkefnið. Kirkjubæjarstofa í Skaftárhreppi mun verða miðstöð verkefnisins þar sem ætlunin er að skapa vettvang fyrir umræður, viðburði og uppákomur ýmsar sem bæði tengjast beint eða óbeint við RURITAGE verkefnið ásamt því að vera vettvangur fyrir ýmsa menningartengda starfsemi. Kirkjubæjarstofa er þegar skilgreind sem menningarmiðstöð og hefur sú starfsemi átt sér stað síðan húsinu var gefið það hlutverk árið 1997 og er því ákjósanleg staðsetning, sérstaklega í ljósi þeirrar tengingar við náttúruvá, menningararfleifð og þeirrar víðáttu og fjölbreytts landslags sem Skaftárhreppurinn hefur upp á að bjóða. 

Við erum gríðarlega spennt fyrir framhaldi verkefnisins og hlökkum til að vinna að þessu með fjölbreyttum hópi sérfróðra um hin ýmsu málefni er snerta verkefnið! 

 

Starfsmenn Kötlu UNESCO Global Geopark.

Twitter Facebook
Til baka