30. apríl 2018

Þrjár nýjar gönguleiðir aðgengilega frítt á Wapp - Walking app.

Katla UNESCO Global Geopark kynnir þrjár nýjar gönguleiðir í glæsilega smáforritinu Wapp. Leiðirnar verða opnar og aðgengilega öllum til tveggja ára, en styrkur til þessa verkefnis fékkst í gegnum samstarfsverkefnið Drifting Apart, verkefni á vegum Norðurslóðaáætlunar Evrópusambandsins. Í verkefninu er samstarf, upplýsingagjöf og fræðsla á jarðminjum, menningu og náttúrunni að leiðarljósi.

Leiðirnar sem um ræðir eru þrjár; um Landbrotshóla í Skaftárhreppi, um Sveinstind NV af Langasjó og  um svæði Sólheimajökuls.


Landbrotshólar er tilkomumikið svæði sem þekkist af einstöku fyrirbrigði er nefnist gervigígar. Svæðið varð til í gosi úr Eldgjá sem átti sér stað fyrir um þúsund árum og er víðáttumesta gervigígasvæði landsins og telur um 50 ferkílómetra. Óteljandi hólar - fjölbreyttir að stærð, lögun og útliti - einkenna svæðið en í lýsingunni er fjallað um myndun hólanna, jarðfræðina og hvernig fólk gat nýtt sér þessu furðulegu fyrirbæri á fjölbreyttan hátt á öldum áður. Gangan er við flestra hæfi og ættu áhugasamir ekki að láta þetta framhjá sér fara.

Sólheimajökull er um 14 kílómetra langur skriðjökull sem gengur úr Mýrdalsjökli í 1360m hæð, niður í þröngan dal og endar í 100m hæð við enda hans. Jökullinn er nokkuð aðgengilegur og hefur lengi verið notaður til jöklaleiðsagnar og skoðunnar í gegnum árin. Fjallað er um skriðjökulinn og megineldstöðina Kötlu og þau gríðarlegu áhrif sem hún hefur haft á land og íbúa. Ekki er hættulaust að fara þarna um og bera þarf í huga hættur á grjóthruni úr fjallshlíðum og þeim hættum sem fylgja því að fara upp á jökul. Ekki er ráðlagt að fara á jökulinn án hjálms, jöklabrodda, öxi og línu eða án fylgdar sérþjálfaðra leiðsögumanna.

Sveinstindur er með fallegri útsýnisfjöllum landsins. Af toppi hans má horfa yfir Vatnajökul til N-austurs eftir endilöngum Langasjó á milli Tungnaár- og Fögrufjalla. Dökkir sandar, djúpur blámi vatnsins og jarðlitir í móberginu eru nokkur af mörgum einkennum svæðisins sem upplifa má sem undraveröld þegar gengið er þar um. Gengið er uppi á Sveinstindi eftir hrygg. Gangan er ekki eins erfið og ætla mætti en auðvitað mælt með að göngufólk sé í sæmilegri þjálfun. Athygli er vakin á því að yfirleitt opnar vegurinn að Sveinstindi ekki fyrr en í byrjun júlí. Opnun hálendisvega má sjá á heimasíðu vegagerðarinnar.


Við þökkum Einar Skúlasyni fyrir frábært samstarf og vinnslu leiðanna ásamt því að óska öllum gleðilegs sumars og góðs gengis á komandi göngum!

 

Meira um smáforritið:

 

Gnótt upplýsinga

Wapp hefur að geyma safn fjölbreyttra GPS leiðarlýsinga fyrir snjallsíma um allt Ísland með upplýsingum um örnefni, sögur, náttúru og umhverfi til þess að njóta ferðarinnar sem best. Leiðarlýsingarnar notast við kortagrunn Samsýnar og hægt að hlaða þeim fyrirfram inn í símann (offline) eða nota þær í beinu gagnasambandi (online).

Ljósmyndir og teikningar eru í öllum leiðarlýsingum og er þar einnig að finna upplýsingar um árstíðabundinn aðgang, bílastæði, almenningssalerni og ef ástæða er til að benda á hættur eða önnur varúðarsjónarmið á leiðunum.

Upplýsingapunktar koma fram á hverri leið sem vísa í lífríki, jarðfræði, örnefni eða annað sögulegt sem tengist umhverfinu. Leiðarlýsingarnar verða ýmist í boði styrktaraðila eða þær seldar notendum á vægu verði.

GPS

Í snjallsímum er GPS staðsetningartæki (Global Positioning System) sem getur fundið út staðsetningu símtækisins með því að tengjast gervihnöttum. Þjónustan kostar ekkert og er ekki í tengslum við áskrift hjá símafyrirtækjum. Símtækið þarf því ekki að vera í gagnasambandi (t.d. 3G) til að nýta þessa tækni..

 
 
ÖRYGGI

Wappið er í samstarfi við Neyðarlínuna þar sem tilkynning um staðsetningu viðkomandi og nafn leiðarlýsingar er send til Neyðarlínunnar þegar göngumaður leggur af stað í göngu. Við lok göngunnar er aftur send tilkynning til Neyðarlínunnar. Þetta er einungis til öryggis og ekki er farið í að skoða gögnin nema ef viðkomanda sé saknað.

 

 

Twitter Facebook
Til baka