01. október 2015

Skaftárhlaup Haldi sig fjarri vegna mengunar

Af fréttavef RÚV 01.10.2015 - 09:05

Rennsli í Skaftá eykst hratt og er nú tæplega 800 rúmmetrar á sekúndu við Sveinstind. Rennslið hefur fimmfaldast frá því á miðnætti. Flóðið fer hratt af stað en búist er við að rennsli geti farið yfir 2000 rúmmetra á sekúndu þegar flóðið nær hámarki sem verður trúlega á laugardag.

Leiðni hefur aukist í ánni í takt við aukið rennsli. Leiðni mælist nú 240 míkrósímens í mælinum við Sveinstind. Brennisteinsmengun eykst með leiðninni og þar með brennisteinsfýla.

Víðir Reynisson, lögreglufulltrúi á Suðurlandi, varar ferðafólk við því í að vera á ferðum nærri ánni vegna mengunar. „Það er þetta brennisteinsvetni sem er hættulegt og síðan flæðir áin yfir vegi í Skaftárdalnum. Vegagerðin er með viðbúnað ef þetta skyldi fara að ógna þjóðvegi 1 en við eigum ekkert sérstaklega von á því að það verði. Það er vatnamælingamenn frá Veðurstofunni komnir uppeftir og fylgjast náið með þannig að við fáum stöðugt upplýsingar um hvernig þetta þróast og högum okkar viðbúnaði eftir því,“ segir Víðir

Twitter Facebook
Til baka