31. október 2014

Vel heppnuð ráðstefna um fortíð, nútíð og framtíð Kötlu jarðvangs

Rúmleg fimmtíu manns sóttu ráðstefnu í Vík mánudaginn 27 október. Þar fóru starfsmenn Kötlu jarðvangs yfir stöðu og framtíðarmöguleika jarðvangsins og gerðu upp IPA verkefni Háskólafélagsins um uppbyggingu í jarðvanginum, sem núna er lokið.  Þar fyrir utan voru flutt mörg áhugaverð erindi. Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri fjallaði um stöðu ferðþjónustunnar og viðhorf ferðamanna eftir heimsókn til Íslands. Kom þar fram að þó að gestristni og viðmót heimamanna skori hátt þegar hinn almenni ferðamaður lítur til baka þá skora gæði þjónustunnar frekar lágt. Hin forvitni ferðalangur nútímans sækist eftir einstaklingsbundinni upplifun, fróðleik og er virkur viðtakandi. Hann mótar eiginn upplifun og í lok ferðar væntir hann þess að fara heim með dýrmæta upplifun í farteskinu. Til að slíkt gerist þurfa gæði þeirra þjónustu sem boðið er upp á að uppfylla væntingar auk þess sem vanda þarf til allra skipulagsmála, gera kröfur til fyrirtækja og samfélagið allt þarf að tileikna sér umhverfisvitund. Magnús Tumi Guðmundsson fjallaði um sérstöðu jarðvangsins í erindi sem hann kallaði „Í ríki Kötlu - jarðvangur eldgosa og jökulhlaupa“. Þar fór hann í jarðfræðilega sérstöðu Kötlu jarðvangs og samspil þeirra þátta. Hinar mikilvirku eldstöðvar sem hér eru hafa byggt upp Suðurlandið frá sjávarbotni á nokkrum milljónum ára. Á hinum forna sjávarbotni rísa nú eldfjöll svo hátt að jöklar safnast þar fyrir og í kjölfarið verða eldgosin með öðrum hætti. Mikil jökulhlaup fylgja þá eldgosunum og eru þau hvergi eins algeng og í jarðvanginum og skilja eftir sig hina sérstöku svörtu sanda. Á söndunum renna síðan hraun frá sprungusveimum tengdum megineldstöðvum en sprungurnar eru á landsvæðum þar sem ekkert gerist nema þegar eitthvað gerist, eins og Magnús Tumi orðaði það og á þar við Eldgjá og Lakagíga.  En þegar eitthvað gerist þá gerist það hratt og verður stórt. Ferðaþjónustuaðilar sem reka fyrirtæki sín á þessum söndum, hraunum og móbergslögum í skjóli jökla og eldfjalla áttu líka sínar raddir. Æsa Gísladóttir í Vík lagði áherslu á sjálfbærni í ferðaþjónustu og hversu mikilvægt það er að ofgera ekki samfélaginu sem er mikilvægasta umgjörðin. Hennar sýn var skýr, persónuleg þjónusta sem ekki má fórna fyrir gróðrarhyggju. Tækifærin sem oft eru ósýnileg þangað til búið er að uppgötva þau og nefndi þar sérstaklega svifvængjaflug og möguleika þess í Vík þar sem gott uppstreymi skapast í hægri austan átt. Björg Árnadóttir framkvæmdastjóri South Iceland Adventure fjallaði um það hvort Katla jarðvangur skipti máli fyrir ferðaþjónustuna. Niðstaðan hennar var sú að samstaða skiptir öllu máli og er Katla jarðvangur að því leiti mjög mikilvægur og tækifæri fyrir alla þá sem innan hans starfa. Í lokin kynnti Guðlaug Ósk Svansdóttir ferðamálafræðingur niðurstöður úr meistaraverkefni sínu sem nefnist: Hvar liggja tækifæri í nýsköpun í Kötlu jarðvangi að mati ferðaþjónustuaðila á svæðinu? Hennar niðurstöður voru þær að tækifærin séu víða og fari eftir  ferðamönnunum sjálfu enda sækjast ólíkir hópar eftir ólíkum upplifunum. Í grófum dráttum þá felast tækifærin í meiri uppbyggingu á vinsælustu áfangastöðunum til þess að hýsa þann aukna fjölda sem vill fá hraða þjónustu og að sjá margt á skömmum tíma, þá þarf að höfða til þeirra sem vilja fræðast um menningu og sögu á nýjum náttúrutengdum áfangastöðum og fyrir þá efnuðustu felast tækifærin í „combo“ ferðum með leiðsögn, þyrlum, dýrum farartækjum og veitingum. Þannig ættu allir ferðaþjónustuaðilar á svæðinu að geta fundið sína hillu innan jarðvangs.

Það má því segja að í Katla jarðvangi felist mörg tækifæri, mikil sérstaða og að innan hans starfi fólk sem gerir sér grein fyrir verðmætum svæðisins og hversu mikils virði samstarfið er. Samstarf var það orð sem sennilega bar oftast á góma á ráðstefnunni og ljóst að Katla jarðvangur er kjörið tækifæri til að vinna að því að byggja upp innihaldsríka og vandaða sjáflbæra ferðaþjónustu með samstilltu átaki. Rekstur jarðvangsins verður styrktur af SASS og sveitafélögunum næsta árið en sveitafélögin gera skýra kröfu á að Katla fari að fljúga úr hreiðrinu á sínum eigin vængjum sem allra fyrst. Hvernig til tekst verður að koma í ljós en tækfærin eru mörg og  kannski má hugsa sér að svifvængir munu að endingu bera Kötlu jarðvang uppi og mynda regnhlíf fyrir þá starfsemi sem innan jarðvangsins þrífst?

Twitter Facebook
Til baka